Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:33:40 (5718)

2001-03-14 14:33:40# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Málefni þeirra sem komast vilja leiðar sinnar innan þéttbýlis á reiðhjólum hafa ekki verið fyrirferðarmikil í umræðunni um samgöngumál enda eru hjólreiðamenn minnihlutahópur eins og allir vita og örugglega ekki fýsilegur markhópur innflytjenda þeirra farartækja sem eru ráðandi í samgöngumálum.

Nú standa fyrir dyrum miklar framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar og hafa hjólreiðamenn verið að á vaktinni og gert athugasemdir við þær framkvæmdir sem komnar eru í formlegt umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun og sömuleiðis hafa verið gerðar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir sem kynntar hafa verið hjá skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur. Hér er um að ræða mislæg gatnamót Hringvegar, Víkurvegar og Reynisvatnsvegar í Reykjavík og gatnamót Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar og síðast en ekki síst tvöföldun Reykjanesbrautar.

Nú spyr ég hæstv. samgrh. tveggja spurninga er varða hagsmuni hjólreiðamanna:

Hvernig er gert ráð fyrir að hagsmunum hjólreiðamanna verði gætt í áætlunum um tvöföldun Reykjanesbrautar? Í því sambandi má minna á að þetta er ekki bara hagsmunamál innlendra hjólreiðamanna því hér er ekki síður mál sem tengist hagsmunum ferðaþjónustunnar. Þeim ferðamönnum fer fjölgandi sem koma hingað til lands í því augnamiði að ferðast á reiðhjólum um landið og það skiptir þennan hóp ferðamanna auðvitað verulegu máli að fyrstu kynni þeirra af vegakerfi okkar séu aðlaðandi og að vel sé hugsað fyrir þörfum þeirra. Þannig skiptir það miklu að vel verði hugað að hagsmunum hjólreiðamanna við tvöföldun Reykjanesbrautar.

Í öðru lagi legg ég þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra hvort samgrn. hafi mótað framtíðarstefnu um aðbúnað og þarfir hjólreiðamanna á þjóðvegum landsins en það er að mínu mati ein ákjósanlegasta og áhrifaríkasta aðferðin við að draga úr útblæstri óæskilegra mengandi lofttegunda að efla möguleika landsmanna á því að ferðast á þennan umhverfisvæna og afslappaða hátt um vegakerfi landsins, jafnt innan þéttbýlis sem utan þess.