Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:41:47 (5722)

2001-03-14 14:41:47# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir að hjólreiðar eru ákjósanlegur ferðamáti og þyrfti að búa sem best í haginn fyrir hjólreiðamenn á vegum en ég vil sérstaklega minnast á þetta út af Reykjanesbraut.

Það er ekki vansalaust hvernig umferðin á brautinni gengur fyrir sig, sérstaklega yfir sumarmánuðina, gríðarlega hröð, og svo þessi afskaplega mikla umferð hjólreiðamanna sem mér skilst að Vegagerðin sé meðvituð um. Það vekur samt athygli að ekkert hefur verið gert t.d. til þess að beina hjólreiðamönnum út á axlirnar. Það eru engar sérstakar merkingar þannig að þeir eru að hjóla inni á sjálfri akbrautinni. Þarna er gríðarleg slysahætta og raunar alveg merkilegt að ekki skuli hafa hlotist af þessu fleiri slys.

Ég vil líka koma því að að ákjósanlegt væri, hvort sem það væri með opinberum stuðningi eða hvernig sem það færi fram, að hjólreiðamenn á þessari leið gætu farið ókeypis með reiðhjólið í rúturnar.