Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:53:36 (5728)

2001-03-14 14:53:36# 126. lþ. 89.5 fundur 497. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur beint svohljóðandi fyrirspurn til mín:

,,Hefur farið fram eða er fyrirhuguð rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann?``

Áhrif háspennulína og annarra slíkra mannvirkja á mannslíkamann hafa lengi verið mönnum hugleikin, einkum með tilliti til hugsanlegra neikvæðra afleiðinga, t.d. krabbameins. Síðustu þrjá áratugi hafa fjölmargar erlendar rannsóknir verið gerðar til að athuga áhrif rafsegulsviðs á mannslíkamann. Einnig hefur mikið verið rannsakað hvort nábýli við háspennulínu geti haft neikvæð áhrif og þá erum við bæði að tala um eðlisfræðilegar og félagsfræðilegar rannsóknir.

Rannsóknir af þessum toga eru mjög vandasamar og erfiðar að framkvæma. Rannsaka þarf mikinn fjölda fólks í langan tíma til að marktækar niðurstöður fáist. Nágrannar okkar í Svíþjóð og Finnlandi hafa undanfarna áratugi stundað miklar rannsóknir á þessu sviði. Finnar birtu fyrir fáum árum niðurstöðu mikillar rannsóknar þar sem þeir höfðu athugað 140 þús. börn og unglinga sem höfðu á árunum 1970--1989 búið innan við 500 metra frá háspennulínum.

Niðurstaða Finnanna er sú að nábýli við háspennulínur virtist ekki valda marktækri aukningu á krabbameinum. Sömu vísindamenn birtu skömmu síðar svipaða athugun á 400 þús. fullorðnum sem á árunum 1970--1989 höfðu búið innan við 500 metra frá 110--400 kw háspennulína. Lét rannsóknin ekki í ljós aukna tíðni krabbameins hjá fullorðnum, hvorki í heildartíðni né í einstökum krabbameinum en 21 tegund þeirra var athuguð alveg sérstaklega.

Í þessum mánuði var birt, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda áðan, skýrsla frá virtum breskum vísindamanni, og reyndar fleirum en honum því að margir vísindamenn tóku þátt í þeirri rannsókn. Þar voru könnuð tengsl rafsegulsviðs og krabbameins. Niðurstaða þeirra er sú að tilraunir á rannsóknastofum hafi ekki leitt í ljós að lágtíðni segulsviðs geti framkallað krabbamein né heldur hafi faraldsfræðilegar rannsóknir á mönnum gefið grun um slíkt þótt vissar faraldsfræðilegar niðurstöður bendi til lítillegrar aukningar á áhættu á hvítblæði hjá börnum sem útsett eru fyrir miklu segulsviði, þá séu slíkar kringumstæður vart hugsanlegar fyrir almenning í Bretlandi.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld, Geislavarnir ríkisins og fleiri stofnanir hafa fylgst grannt með rannsóknum nágrannaþjóðanna í þessum málum. Ljóst er að fámenni íslensku þjóðarinnar leyfir ekki marktækar rannsóknir hér í landi. Sú hugsanlega hætta sem af þessum mannvirkjum kann að stafa er svo lítil að faraldsfræðilega tel ég engar forsendur fyrir rannsóknir hér í landi á áhrifum þess á mannslíkamann.

Það má vera ljóst eins og kom líka fram hjá fyrirspyrjanda áðan að sannað hefur verið að ýmsir aðrir umhverfisþættir eins og t.d. reykingar hafa mikil áhrif þó óbeinar reykingar séu og því er mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgjast mjög grannt með öllum þeim rannsóknum sem gerðar eru erlendis varðandi þetta atriði sem hér er um rætt. En eins og ég segi, þá er íslenskt þjóðfélag það lítið að það getur ekki gert marktækar faraldsfræðilegar rannsóknir á þessu sviði.