Viðhald sjúkrahúsbygginga

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:11:59 (5737)

2001-03-14 15:11:59# 126. lþ. 89.6 fundur 513. mál: #A viðhald sjúkrahúsbygginga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Þetta voru afar fátækleg svör svo ekki sé meira sagt vegna þess að ég spurði, virðulegi forseti, við hvaða reglur hefði verið stuðst fram að þessu við mat á því hvað telst til meiri háttar viðhalds sjúkrahúsbygginga. Það er alveg klárlega þannig að í 34. gr. er kveðið á um að aðeins þegar um meiri háttar viðhaldskostnað er að ræða eiga sveitarfélögin að taka þátt í því og þá skiptir ekki máli hvort þau eiga fulltrúa í stjórninni eða ekki. Reglugerðarheimildin og ákvörðunin um það eftir hverju er farið liggur auðvitað hjá ráðuneytinu. Það liggur ekki hjá sveitarstjórnarmönnum sem skipaðir eru í stjórnir viðkomandi stofnana. Það er ekki þannig. Ég spyr einfaldlega: Eftir hverju hefur verið farið? Er það þannig, nákvæmlega eins og það sem ég taldi upp hérna áðan, að allir þessir þættir geta ekki bókhaldslega séð talist meiri háttar viðhald og þar með undir stofnkostnað? Því þar af leiðir að þeir geta ekki fallið undir ákvæði þessarar 34. gr. laga. Það er ekki hægt.

Eftir þeim upplýsingum sem hef aflað mér frá bæjar- og sveitarstjórnum er það þannig að hentistefna hefur ríkt í þessum efnum og menn hafa leitað upplýsinga í ráðuneytinu um það hverjar séu vinnureglurnar, hvað er meiri háttar viðhald, hvaða viðhald á að flokka sem stofnkostnað. Það getur varla verið þannig, virðulegi forseti, að pokakerfi þvottahússins eða endurnýjun ljósritunarvélar eða áhaldaþvottavél, sem eru ekki dýrir þættir, en þó flokkaðir á þennan hátt og heimilaðir af ráðuneytinu beint til að geta rukkað viðkomandi sveitarfélög. Það er þannig að reglurnar eru óskýrar. Ég var einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra eftir hvaða reglum hefði verið farið. Hæstv. ráðherra getur ekki svarað því.