Viðhald sjúkrahúsbygginga

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:14:11 (5738)

2001-03-14 15:14:11# 126. lþ. 89.6 fundur 513. mál: #A viðhald sjúkrahúsbygginga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég svaraði hv. þm. áðan og ég geri það aftur ef hún hefur misst af því svari sem hér var borið fram. Það er einfaldlega þannig að ef það er ekki innan fjárlagaheimilda og þarf að sækja í sérstaka sjóði heilbrrn. varðandi meiri háttar tækjakaup og viðhald þá hafa sveitarfélögin komið þar að og greitt 15%. Það er bara einfaldlega þannig. Enda hefur sú regla gilt allt frá 1990 þegar þau lög sem vitnað hefur verið í voru samþykkt á Alþingi. Svo geta menn deilt um hvað er meiri háttar viðhald til að mynda eða meiri háttar tækjakaup en þetta er sú regla sem hefur gilt og hefur verið fullt samkomulag um.

En ég get vel skilið að sveitarstjórnarmönnum úti á landi hafi sviðið það varðandi viðhaldsframkvæmdir að á Reykjavíkursvæðinu hefur borgin ekki þurft að greiða eina einustu krónu til tækjakaupa. Það er það viðmið sem hefur farið fyrir brjóstið á sveitarstjórnarmönnum, ég skil það vel. Þess vegna er verið að endurskoða þessar reglur. Það er verið að endurskoða þær í félmrn. og það á að ljúka þeirri endurskoðun fyrir septemberlok á þessu ári. Ég tel mjög mikilvægt að menn nái sáttum í þessu máli því að við þurfum auðvitað að hafa alveg skýrar reglur varðandi hver greiðir það.

En hvað varðar þá einstöku vél sem hv. þm. talaði um á Selfossi þá kannast ég ekkert við það mál en ég veit um miklu stærri hluti sem menn hafa verið að kljást við. Þá er ég að tala um tækjakaup, t.d. á Akureyri, sem við erum að leggja kannski 60 millj. til og það tekur verulega í hjá bæjarfélaginu. Um það er auðvitað stór glíma.