Rekstur heilsugæslustöðva í Reykjavík

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:19:08 (5740)

2001-03-14 15:19:08# 126. lþ. 89.7 fundur 514. mál: #A rekstur heilsugæslustöðva í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og flestum er kunnugt hafa í auknum mæli verið gerðir þjónustusamningar við heilbrigðisstofnanir í landinu og árangursstjórnunarsamningar og ýmislegt verið gert til að setja rekstur í nútímalegra form. Árið 1996 var kynnt stefnumótun í heilsugæslunni og sú stefnumótunarvinna var unnin af heilbrrn. og fulltrúum Félags heilsugæslulækna. Sú vinna gekk mjög hægt fyrir sig í upphafi en nánast hvert einasta atriði sem sett var fram í þeirri stefnumótun hefur náð fram að ganga.

Innan heilsugæslunnar í Reykjavík eru nú í gildi tveir þjónustusamningar. Annar samningurinn er við heilsugæsluna í Lágmúla sem sér um rekstur heilsugæslustöðvar fyrir hluta borgarinnar. Hinn þjónustusamningurinn er við Læknavaktina fyrir hönd heilsugæslulækna, sem hefur tekið að sér vaktþjónustu í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Bessastaðahreppi, auk þess sem Læknavaktin hefur tekið að sér að hafa opna bráðamóttöku um kvöld og helgar. Einnig hefur hún annast umfangsmikla þjónustu í síma og er í þjónustusamningnum gert ráð fyrir að hún geti létt nætursímtölum af vakthafandi heilsugæslulæknum í fjórtán læknishéruðum landsins þar sem aðeins er einn læknir starfandi.

Reynslan af gerð þessara þjónustusamninga er mjög góð. Ég hef áður lýst í ræðu og riti yfir áhuga mínum á fjölbreyttum rekstrarformum innan heilsugæslunnar. Vil ég í þessu sambandi minna á að nú eru alls fimm mismunandi rekstrarform innan heilsugæslunnar þótt það vilji stundum gleymast í umræðu um þessi mál. Hef ég beint því til stjórnenda heilsugæslunnar í Reykjavík að undirbúa rekstur næstu heilsugæslustöðvar með það í huga að leitað yrði eftir sjálfstæðum rekstraraðilum til að bera ábyrgð á starfseminni. Yrði þá gerður þjónustusamningur við þá sem tækju að sér þessa þjónustu. Þetta hefur oft verið rætt á Alþingi og þarf svo sem ekkert að rifja það upp, ég veit að hv. fyrirspyrjendur þekkja það vel, og þá erum við að tala hér um Heima- og Vogahverfi.

En eins og ég segi þá hafa þjónustusamningar yfir höfuð reynst vel, með nokkrum undantekningum þó eins og allt sem við gerum, en við munum ekki síður en annars staðar í heilbrigðisþjónustunni vinna að því gagnvart heilsugæslunni.