Sjálfstætt starfandi heimilislæknar

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:31:01 (5746)

2001-03-14 15:31:01# 126. lþ. 89.8 fundur 515. mál: #A sjálfstætt starfandi heimilislæknar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Í fyrri fyrirspurninni fór ég yfir þessi mál eins og þau eru, að fimm rekstrarform eru í heilsugæslunni á Reykjavíkursvæðinu. En það sem við verðum fyrst og fremst alltaf að hafa í huga er að það verður að vera einhver regla sem gildir, og sú regla gildir að heilsugæslan í Reykjavík, þ.e. stjórn heilsugæslunnar, hefur yfirumsjón með heilsugæslunni almennt. Eins og kom fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur áðan megum við heldur ekki gleyma því að það er líka heilsugæsla úti á landi, og við erum að tala um mismunandi rekstrarform. Við verðum auðvitað að hafa það þannig yfir landið allt að sátt sé um það kerfi sem ríkir, að við séum ekki með allt annað kerfi úti á landi en t.d. á Reykjavíkursvæðinu.

Það er alveg hárrétt sem kom fram áðan að allt of löng bið er núna eftir því að komast til heilsugæslulæknis almennt á Reykjavíkursvæðinu. Það er allt of löng bið. En ýmislegt hefur líka verið gert til að koma til móts við þarfirnar. Ég nefndi Læknavaktina áðan sem er þjónustusamningur við. Auðvitað léttir það geysilega mikið á og veitir mikið öryggi að alltaf eftir klukkan fimm geti fólk farið á Læknavaktina, komist það ekki til heilsugæslulæknis síns sem er þó æskilegast.

En það eru líka ýmis önnur rekstrarform sem hafa vaxið og dafnað, eins og t.d. Barnalæknaþjónustan, sem er með mikla þjónustu og margt af því sem þangað fer hefði annars farið til heilsugæslunnar. Og það er einmitt spurningin, og ég held að menn verði að átta sig á því, á þetta allt að vera opið, bara opnir kranar? Þess vegna liggur nú fyrir þinginu frv. um það hvernig við getum nákvæmlega haft stýringu á þessu máli.