Kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:50:57 (5756)

2001-03-14 15:50:57# 126. lþ. 89.9 fundur 518. mál: #A kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég er alveg óskaplega lélegur bókhaldari og ætla ekki að fara í gegnum ríkisreikninga í óundirbúinni fyrirspurn, það veit sá sem allt veit. Aðalatriðið er þetta: Við veitum góða þjónustu um allt land. Sátt hefur verið á milli sveitarfélaganna og ríkisins um hvernig við veitum þessa þjónustu á stöðunum. Sátt hefur verið um þessar greiðslur. Ég held að það sé aðalatriðið. Sveitarstjórnarmenn hafa samþykkt þessar greiðslur, alveg eins og ríkið hefur samþykkt þessar greiðslur eins og undirskrift mín ber vitni um varðandi pokana sem áðan var rætt hér um.

Þó að ég kunni lítið í bókhaldi þá þekki ég mjög vel til sveitarstjórnarmála og var þar í mörg ár áður en ég kom á Alþingi. Þá eru samskipti sveitarfélaga og ríkis þannig að það gengur ekkert óskaplega hratt fyrir sig, það veit ég að sá hv. þm. sem situr á móti mér getur nú borið vitni um. Auðvitað er það þannig að allir vilja fá nokkuð fyrir sinn snúð. Þegar við erum í svona samningaviðræðum, þá erum við t.d. að hugsa um auka sálfræðiþjónustu. Við erum að hugsa um að auka sálfræðiþjónustu og sveitarfélögin koma aðeins meira inn í það en þau hafa gert hingað til og um það eru menn að ræða svo ég segi ykkur það alveg nákvæmlega.

Svo spurði hv. þm. mig að því hvort það væri stefna ríkisstjórnarinnar að kaupa hlut sveitarfélaganna í sjúkrahúsunum? Það er ekki stefnan að gera það enda skulum við muna hvernig það var þegar skólarnir fóru yfir til sveitarfélaganna frá ríkinu, þá man ég ekki eftir því að ríkið hafi rukkað sveitarfélögin um nokkra einustu krónu hvað það varðar (Gripið fram í.) enda er þetta sameiginlegt mál sveitarstjórnarmanna og ríkisins. Ég held að ekki sé von á neinum meiri háttar kaupum hjá ríkinu hvað þetta varðar.