Fjöldi öryrkja

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:55:28 (5758)

2001-03-14 15:55:28# 126. lþ. 89.10 fundur 544. mál: #A fjöldi öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er viðamikil spurning í þremur liðum. Í mars sl. voru 9.467 öryrkjar með 75% örorku sem fengu greiddar lífeyrisbætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Síðan voru 955 öryrkjar með 50--65% örorku sem fengu greiddan örorkustyrk á sama tíma. 396 voru á lífeyri vegna endurhæfingar. Af hópi öryrkja voru 58% konur og 42% karlar, en af örorkustyrkþegum voru 65% konur, en 35% karlar. Örorka er því marktækt algengari hjá konum en körlum. Metin hefur verið 75% örorka hjá 4,2% Íslendinga á aldrinum 16--66 ára, en 0,7% þjóðarinnar hafa fengið örorkumat milli 50% og 65% og eiga því rétt á örorkustyrk.

Algengustu fyrstu sjúkdómsgreiningar hjá örorkulífeyrisþegum voru geðræn vandamál og stoðkerfisvandamál eða alls rúmlega helmingur tilvika. Nánari greining öryrkja eftir sjúkdómaflokkum sýnir að tæplega 40% eru metnir með tauga- og geðsjúkdóma, u.þ.b. 20% með sjúkdóma í stoðkerfi og tæplega 10% með hjarta- og æðasjúkdóma. Aðrar greiningar eru 5% eða minni.

Þessi skipting er svipuð í Noregi og í Svíþjóð þar sem vitað er að algengustu greiningar eru þær sömu og á Íslandi. En þar eru þó stoðkerfissjúkdómar mun algengari forsenda örorku en geðræn vandamál sem er helsta forsenda örorku á Íslandi eins og fyrr segir.

Geðræn vandamál eru algengust á höfuðborgarsvæðinu, bæði hjá konum og körlum og einnig á landsbyggðinni hvað karla varðar, en hjá konum á landsbyggðinni er lítill munur á tíðni þessara sjúkdómaflokka. Ekki liggja fyrr nákvæmar upplýsingar um skiptingu örorkumatsins eftir sjúkdómaflokkum í öðrum löndum.

Hvað varðar aðra spurningu þá sýnir það samanburð við hin Norðurlöndin að hlutfallslegur fjöldi öryrkja er svipaður á Íslandi og í Danmöku en hann er mun hærri í Finnlandi, Noregi og í Svíþjóð. Árið 1996 var þetta hlutfall þannig: 4,2% á Íslandi, 4,3% í Danmörku, 7,6% í Svíþjóð og 8,6% í Noregi, en Finnar skáru sig úr með 9,2% hlutfall af íbúum á aldrinum 16--66 ára sem voru þar öryrkjar.

Þróunin á undanförnum árum í þessum löndum hefur verið sú að framangreint hlutfall hefur hækkað lítillega frá ári til árs en þó ekki svo mikið að það skekki umtalsvert samanburð við Ísland árið 1996. Samanburðurinn við Norðurlöndin sýnir einnig að aldursdreifing örorkulífeyrisþega er önnur á Íslandi en í hinum löndunum. Fjöldi örorkulífeyrisþega sem hlutfall í hverjum aldursflokki er hærri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum fram til þrítugsaldurs. Eftir það er þetta hlutfall hærra í hinun löndunum, þá hækkar það ört með vaxandi aldri eftir fimmtugt og er það orðið meira en tvöfalt hærra í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð en hér á Íslandi.

Samsvarandi þróun hefur orðið í Vestur-Evrópu og er hún víða meiri þar en á Norðurlöndum. Skýringar á þessari þróun má rekja beint til rýmri heimilda í þessum löndum til þess að nota örorkubótakerfið til að rýma til á vinnumarkaði og þá til að dylja umfang atvinnuleysis. Í örorkumati er þó gjarnan aukið vægi félagslegra aðstæðna umfram læknisfræðilega þætti örorkumatsins. Þessi leið hefur ekki verið farin á Íslandi enda er atvinnuþátttaka fólks í öllum aldurshópum yfir fimmtugt mun hærri hér en annars staðar á Vesturlöndum.

Hvað spurningu þrjú varðar þá búa 64% allra öryrkja á Íslandi á höfuðborgarsvæðinu en utan þess um 36%. Á sama tíma skiptast Íslendingar á aldrinum 16--66 ára þannig að rúm 60% búa á höfuðborgarsvæðinu, en tæplega 4% utan þess. Nú er mínum tíma lokið en ég hef ekki alveg svarað fyrirspurninni og get komið að því á eftir.