Jarðvarmi og vatnsafl

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:22:45 (5772)

2001-03-14 18:22:45# 126. lþ. 89.12 fundur 547. mál: #A jarðvarmi og vatnsafl# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hef áður fagnað því framtaki sem á sér stað í vinnunni við rammaáætlunina en ég hef sömuleiðis gagnrýnt þann hátt sem hafður hefur verið á þessari vinnu að ekki skuli á meðan frestað framkvæmdum við virkjanakosti sem eru í fullum gangi eins og kom fram í máli hv. frummælanda. Ég hef sömuleiðis gagnrýnt forræði þessarar áætlunar, að það skuli ekki vera á hendi umhvrh. En allt um það hér og nú.

Mér finnst skipta verulegu máli að hæstv. iðnrh. svari okkur því hvert stjórnsýslulegt gildi þessarar rammaáætlunar komi til með að verða. Kemur þetta til með að hafa einhvers konar lögfestingargildi eins og önnur skipulagsmál eða verður þetta bara leiðbeinandi plagg fyrir ríkisstjórnina sem hún getur farið eftir að eigin geðþótta?

Ef svo verður, þá erum við í mikilli hættu, sömu hættu og Norðmenn kölluðu yfir sig með því að rammaáætlun þeirra var bara leiðbeinandi plagg. Reyndar hefur það gerst í Noregi að ríkisstjórnin þar hefur hætt við ákveðnar virkjanir vegna þess að þær hafa ekki þótt samrýmast stefnu stjórnarinnar þó að þær hafi verið inni á rammaáætlun.