Jarðvarmi og vatnsafl

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:27:34 (5775)

2001-03-14 18:27:34# 126. lþ. 89.12 fundur 547. mál: #A jarðvarmi og vatnsafl# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel að þessi vinna sé í ákaflega góðum höndum í iðnrn. en reyndar var það nú svo sem áður en ég kom þar sem sú ákvörðun var tekin að hafa þennan háttinn á. En eins og ég lét koma fram í máli mínu er vinnan í samráði við umhvrh., og a.m.k. síðan ég kom í iðnrn. hefur ekki komið upp neitt vandamál í samstarfi okkar og ég tel að það sé hið besta.

Hvað varðar stjórnskipulegt gildi þá er það eitt af því sem við erum að fjalla um og erum að kynna okkur hvernig aðrar þjóðir hafa farið að í þeim efnum. Mér er kunnugt um hvernig Norðmenn leystu það mál, ef lausn skal kalla, en ég geri mér grein fyrir því að það skiptir nokkuð miklu máli. En ég vil segja að lokum að ég tel að þessi vinna sé í mjög góðum höndum og í góðum farvegi og sé öll til mikillar fyrirmyndar.