Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 10:35:05 (5782)

2001-03-15 10:35:05# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[10:35]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja en eins og fram hefur komið í ræðu hv. formanns iðnn. hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara. Ég vil aðeins að það komi fram að ég tel að vinnubrögð við þetta mál hafi verið allsendis ófullnægjandi. Þetta er keyrt í gegnum þingið með miklum hraða og fer til umfjöllunar í þingnefnd áður en þingið er búið að afgreiða málið og ég tel að það sé ekki til eftirbreytni og við eigum ekki að standa þannig að málum.

Einnig vil ég að það komi fram að ég hef áhyggjur af svona vinnubrögðum vegna þess að ég tel að við séum að slíta hlutina úr samhengi. Það liggur fyrir að iðnn. er að fá til umfjöllunar ný orkulög sem byggð eru á tilskipun frá Evrópusambandinu um nýtt form eða nýtt skipulag orkumála. Ég tel að það hefði átt að bíða með þessa breytingu þangað til við hefðum fast land undir fótum í þeim efnum og sæjum landið fyrir í heild sinni á grunni nýrra orkulaga.

Í þriðja lagi vil ég nefna annað. Ég tel að það sé vont fyrir höfuðborgarsvæðið að stuðla að því að setja upp fyrirtæki sem mun óhjákvæmilega leiða til þess nú á næstu mánuðum að það verður samkeppni um lönd eða öllu heldur samkeppni um kaup á löndum þar sem orka er hugsanlega fyrir hendi vegna þess að það hefur komið fram hjá mönnum að þeir hugsa stórt. Það er allt í lagi með það, en samkeppni um kaup á löndum getur óhjákvæmilega ekki leitt til annars en að slíkt kemur niður á neytendum á höfuðborgarsvæðinu þegar til lengri tíma er litið. Samkeppnin er þegar í gangi. Orkuveita Reykjavíkur hefur verið að hasla sér völl á þessu svæði og þetta hlutafélag mun að sjálfsögðu fara af fullum þunga inn í þá samkeppni og það tel ég alls ekki tímabært. Af hverju ekki? Vegna þess t.d. að það eru ekki bara orkulögin sem verið er að fjalla um núna og er ekki afgreitt mál heldur er að störfum þjóðlendunefnd og sú nefnd er ekki einu sinni komin að Reykjanesskaga eða umhverfi höfuðborgarsvæðisins þannig að þar er allt í uppnámi. Það eru ekki bara bændur á Suðurlandi og í Skaftafellssýslu sem héldu að þeir væru stórir landeigendur en eru það ekki lengur samkvæmt stefnu ríkisins. Það getur allt eins farið svo að þegar þjóðlendunefnd hefur fjallað um svæðið umhverfis höfuðborgarsvæðið og Reykjanes að menn eigi ekki þau lönd og eigi ekki þá orku sem þeir héldu að þeir ættu. Ég hefði haldið að við slíka hlutafélagsmyndun væri algert grundvallaratriði að menn hefðu þennan ramma, vissu hvar þeir stæðu, og að þessi mál væru afgreidd fyrst, þ.e. ný orkulög á grunni tilskipunarinnar og að fá úrskurð þjóðlendunefndar þó ég geri mér grein fyrir því að það taki eitthvað lengri tíma.

Í fimmta lagi er önnur nefnd að störfum sem á að skila áliti um það hvernig við stöndum að jöfnun á orkuverði í landinu því að eins og menn vita, sitja Rafmagnsveitur ríkisins uppi með orkuafhendingu inn á þau svæði sem eru ekki arðbær, svokallaður félagslegur þáttur. Nefnd er að störfum sem á að fara ofan í það hvernig við eigum að standa að jöfnun orkuverðs og þetta verða ný fyrirtæki líka að vita. Það eru gefnar upp þrjár formúlur fyrir jöfnun orkuverðs, þ.e. skattalega leiðin í tvennum skilningi annaðhvort með því að lækka skatta, eins og söluskatt á orkuafhendinguna eða að setja inn beina ríkisstyrki eða þá að setja á framleiðslugjald. Þetta liggur heldur ekki fyrir og er ákaflega óheppilegt þegar við erum að ræða um þessi mál að það skuli ekki vera á hreinu.

Virðulegi forseti. Hitaveita Suðurnesja er gríðarlega öflugt fyrirtæki nú um stundir en hún er líka mjög sérstök. Vatnssala Hitaveitu Suðurnesja inn á Suðurnesin er út úr rekstri upp á 2 milljarða 458 millj. Þá er vatnssalan inn á svæðið aðeins 395 millj. Vatnssalan inn á Keflavíkurflugvöll, sem er miklu minni kaupandi í magni en byggðirnar á Suðurnesjum, er hins vegar 621 millj. Hitaveitan er líka með raforkusölu upp á 551 millj. og þar af raforkusölu inn á Keflavíkurflugvöll upp á 291 millj., og raforkuksalan til Landsvirkjunar er síðan upp á 254 millj. Fyrirtækið framleiðir 46 megavött af afli þar sem það notar um það bil 16 megavött sjálft en kaupir til baka aftur 16--18 megavött af Landsvirkjun. Uppsetningin á þessu fyrirtæki er ákaflega sérstæð. Í mínum huga er Hitaveita Suðurnesja og uppsetning hennar að hluta til byggð á utanríkismálasamþykkt þingsins og þjóðarinnar gagnvart ameríska hernum, gagnvart NATO. Það gerir málið mjög sérstakt og í því óðagoti sem átti sér stað við að keyra þetta mál í gegn datt mönnum í hug að gefa heimild, raunar án mikillar umræðu, hér og nú og strax um að selja hlut ríkisins sem er um 25% í fyrirtækinu á grunni þess frv. sem við erum að tala um hér.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins að það komi fram að hér er verið að fara út í mál sem er ekki búið að vinna vel. Á nefndarfundi voru bara kallaðir hagsmunaaðilar af Suðurnesjum, þeir sem ætla að fara út í stofnun hlutafélagsins. Við hefðum þurft að fá heildarmynd, við hefðum þurft að fá aðra aðila, Landsvirkjunarmenn, Rarik-menn, jafnvel menn frá Orkubúi Vestfjarða til að fá þá heildarmynd sem ég er að tala um vegna þess að fyrir dyrum stendur að afgreiða í gegnum þingið ný orkulög og í vinnslu eru stórir hlutir eins og það að gera sér grein fyrir því hver er eignaraðili á landi. Þetta stóra mál með því að hleypa samkeppninni í gang um landakaup og orkukaup á þessu svæði tel ég að geti komið höfuðborgarsvæðisbúum í koll síðar. Það getur ekki farið hjá því að það mun koma niður á orkureikningum manna síðar.

Virðulegi forseti. Að síðustu. Ég skrifa undir þetta frv. með fyrirvara. Mér finnast vinnubrögðin ekki góð. Mér finnst að þingið setji niður við að láta svona afgreiðslu eiga sér stað á færibandi án þess að skoða málin heildstætt þegar fyrir liggur að svo mörg atriði eru í uppnámi varðandi heildarumgjörð raforkuvinnslunnar og orkuframleiðslunnar í landinu.