Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 10:49:12 (5786)

2001-03-15 10:49:12# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni alveg þá vinnu sem eigendur að hluta til hafa lagt í þessa vinnu og ég ber mikla virðingu fyrir fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja, um það snýst málið ekki. En ég vil benda hv. formanni iðnn. á það að ríkið er líka eigandi að Hitaveitu Suðurnesja, 20%. Og það er alveg sjálfsagður hlutur hér að við leggjum tilsvarandi mikla og góða vinnu í mál eins og sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa gert. Ég tel að við höfum ekki gert það. Ég tel að við höfum ekki lagst yfir þetta mál á þann hátt sem heimamenn hafa gert og það er það sem ég er að gagnrýna fyrst og fremst. 20% er ekki lítill eignarhlutur.

Og það sem ég er að gagnrýna líka er þetta umhverfi sem við erum að tala um. Ég vil ekki standa þannig að málum að hrint sé af stað atburðarás sem gerir það að verkum að lönd og orkusvæði verða tekin til kaups. Það leiðir af sjálfu sér þegar búið er að stofna fyrirtæki að það fer með einhverjum hætti í samkeppni á því svæði um uppkaup á löndum þar sem hugsanleg orkuvinnsla á að fara fram o.s.frv. Ég hefði viljað hafa þetta skýrar sem handhafi og sem ábyrgðarmaður fyrir stórum hluta af þessu fyrirtæki. Við höfum ekki staðið okkur að mínu mati og það er það sem ég er að draga fram.