Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 10:50:57 (5787)

2001-03-15 10:50:57# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[10:50]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég var fjarverandi á þeim fundi þar sem þetta mál var afgreitt úr nefndinni. Ég tók hins vegar þátt í umræðu um málið þegar mælt var fyrir því í þinginu og tók jafnframt þátt í þeirri vinnu sem fram fór í nefndinni þegar fjallað var um málið þar sérstaklega. Mér finnst því eðlilegt að ég geri aðeins grein fyrir þeirri skoðun minni að ég er fullkomlega sátt við afgreiðslu málsins.

Ég lít svo á að þarna séu Hitaveita Suðurnesja og Rafveita Hafnarfjarðar að búa sig undir það landslag sem í vændum er í þessum málum og um það var nokkuð fjallað við 1. umr. málsins. Þar var farið yfir það umhverfi sem orkufyrirtækin í landinu horfa nú fram á þegar okkur auðnast að samþykkja héðan frá Alþingi ný raforkulög sem væntanlega verður á næstu missirum, en menn vita svona nokkurn veginn hvernig það landslag muni líta út, menn ganga ekki alveg blindir í þá átt.

Það er svo, herra forseti, að raforkufyrirtækin í landinu og orkufyrirtækin eru þegar farin að búa sig undir þessa breyttu framtíð. Það sem við erum hér að vinna með, þ.e. stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja með þessum samruna, er liður í þeirri þróun. Þau fyrirtæki sem vinna á þessum markaði hafa ekki setið auðum höndum eins og ráða mátti af ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Þau hafa verið að tryggja sig í sessi, m.a. með landakaupum. Berast af því reglulegar fréttir með hvaða hætti orkufyrirtækin í landinu hyggist hasla sér völl.

Á undanförnum missirum höfum við orðið vör við mikinn áhuga fyrir breytingum á ýmsum þáttum í þessu kerfi. Það er talað um að Rarik verði flutt til Akureyrar, menn tala um samvinnu á þeim vettvangi. Menn hafa talað um útþenslu þess orkufyrirtækis sem Reykjavíkurborg á, bæði uppkaup á löndum og vilja þess til samvinnu og sameiningar við fyrirtæki austur um sem er þegar í fullum gangi. Við sjáum hvað er að gerast hér. Við vitum að orkufyrirtækin í landinu eru á fullu.

Þó að þetta frv. verði að lögum er ekki þar með verið að ýta á samkeppnistakkann, rástakkinn er ekki hér. Það er löngu búið að ýta á hann. Það er allt á fullu í þeim geira og menn vita mætavel hvað þeir eru að gera af því að þetta eru fagmenn sem hér eru að vinna. Þeir vita mætavel þegar þeir taka ákvarðanir að það umhverfi sem þeir búa í mun breytast á næstu missirum. Þeir vita líka að þjóðlendunefndin er að störfum. Landsvirkjun veit mætavel að þjóðlendunefnd er að störfum og Landsvirkjun þarf auðvitað eins og aðrir að búa sig undir það að eitthvað af þeim vatnsréttindum sem Landsvirkjun keypti og telur sig eiga mun reynast þjóðareign. Þetta er auðvitað nokkuð sem ýmsir verða að horfast í augu við, ekki bara bændur heldur líka einstök fyrirtæki sem í einhverri trú, líklega góðri trú, keyptu réttindi sem síðar kemur í ljós að sá sem seldi var ekki lögmætur eigandi að.

Þó að þetta ferli sé í gangi þýðir það einfaldlega ekki að menn haldi að sér höndum af því að lífið heldur áfram og sú vinna og sá undirbúningur sem í gangi er er að mínu mati fyllilega eðlilegur vegna þess að fyrirséð er að við munum koma á samkeppni í orkugeiranum og eðlilega eru fyrirtækin að búa sig undir slíka samkeppni. Það er sjálfsagt, og við viljum að þau verði fleiri sem hafi burði til að takast á. Það eina sem við þurfum að passa er að fyrirtækin verði ekki svo smá og vanmáttug að hér verði til einstakur risi á markaðnum sem geti deilt og drottnað. Það er ekki sú framtíð sem við viljum sjá. Við viljum sjá nokkur sterk fyrirtæki sem geta tekist á þannig að hér geti skapast eðlilegur samkeppnismarkaður.

Auðvitað kann eignarhluti í þessu fyrirtæki að breytast. Auðvitað kunna menn að selja þá hluti sem þeir þarna eiga. Það er líka hluti af því viðskiptaumhverfi sem fyrirtæki af þessu tagi eru komin inn í og eru að koma inn í. Og af því það var nefnt hér þá kom fram við 1. umr. að það væri e.t.v. eðlilegt að ríkissjóður seldi hlut sinn fyrr en seinna og nýtti þá peninga til uppbyggingar heima fyrir, horfandi til fordæmisins úr Mývatnssveit þar sem ákveðið hefur verið, a.m.k. liggur það þannig í frv. og það er til þess vilji en það kann að breytast í nefnd. Og nú ætla ég að tala með þeim fyrirvara að málið er ekki afgreitt frá Alþingi, en búið er að lýsa yfir þeim vilja að það fé sem þannig losnar við sölu á eignarhlut ríkisins verði nýtt til uppbyggingar heima fyrir. Og að sjálfsögðu varpa menn því inn í þessa umræðu hvort hér mætti hafa sama hátt á og þar var gert, að ríkið sem kann á sínum tíma að hafa verið eðlilegur samstarfsaðili um þetta verkefni í Hitaveitu Suðurnesja en er ekki jafnaugljóst að þurfi að vera þar í dag selji hlut sinn og að andvirðið verði þá með einhverjum hætti nýtt til uppbyggingar á Suðurnesjum. Hér var Reykjanesbrautin nefnd og flýtiframkvæmdir við hana. Þessi mál voru reifuð við 1. umr. Mjög eðlilega, herra forseti.

En eins og hér kom fram og ég vildi láta koma fram vegna þess að ég var ekki á þeim fundi þar sem málið var afgreitt, þótt ég tæki þátt bæði í umræðu og síðan nefndarvinnunni, þá var ég sátt við frv. og fannst vinnan fullnægjandi. Þar sem ég hafði kynnt mér málið eftir að það kom inn í þingið með samtölum við þá aðila sem að því standa þóttist ég sjá að málið væri þannig unnið að ekki væri ástæða til annars en að Alþingi fyrir sitt leyti veitti því brautargengi. Það er ekki einfalt fyrir svo mörg sveitarfélög að ná samkomulagi sem allir eru sáttir við. Það tókst í þessu tilfelli eftir mikla vinnu og ég vænti þess að það skref sem hér verður stigið, verði þetta frv. að lögum, verði gæfuspor fyrir þetta fyrirtæki í því samkeppnisumhverfi sem fyrirsjáanlegt er, herra forseti, eins og margoft hefur komið fram þegar okkur auðnast að ganga frá nýjum raforkulögum.