Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:04:43 (5790)

2001-03-15 11:04:43# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að í orðum hv. þm. hér áðan hafi falist að hann vildi að þetta mál fengi meiri tíma í meðförum þingsins og yrði ekki afgreitt fyrr en síðar. Hins vegar er það eindreginn vilji heimamanna að þetta mál verði afgreitt sem allra fyrst.

Það er líka eindreginn vilji heimamanna að málið verði afgreitt eins og hér er lagt til af hv. þingnefnd og þannig kemur málið fyrir þingið. Ég held að ég hafi ekki misskilið það sem hv. þm. sagði. Ég heyrði nákvæmlega hvað hann var að segja, að nauðsynlegt væri að fara í málið á annan hátt vegna þess að þjóðlendufrv. væri í vinnslu og það ætti eftir að leggja fram kröfur nefndar um það hvar þjóðlendur eigi að liggja í Reykjanesi. Það er margra mánaða ferli sem getur tekið einhver ár ef við ætluðum að bíða eftir því. Við vitum ekki einu sinni til þess að þjóðlendurnar nái svo langt að þær mundu trufla virkjanahugmyndir hitaveitunnar.

Hv. þm. talaði um að við þyrftum að bíða eftir einhverri nefnd sem vinnur að því að finna leiðir til að jafna orkuverð. Ég veit ekki hvenær sú nefnd á að ljúka störfum. Mér finnst því málflutningur hv. þm. eindregið benda til þess að hann hafi viljað draga afgreiðslu þessa máls, sem skaðar að sjálfsögðu málið í heild sinni.