Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:14:17 (5794)

2001-03-15 11:14:17# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Árni R. Árnason séum nú ekki svo langt hvor frá öðrum í afstöðu okkar til þessara fyrirtækja. Ég hef margoft lýst því yfir í ræðum um orkumál hér að ég teldi að staða Rariks væri ákaflega veik vegna þess að Rarik hefði ekki fengið tækifæri til þess að framleiða orku. Ég þekki það mikið til Hitaveitu Suðurnesja að ég veit að það nákvæmlega sama gildir um það fyrirtæki.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér í því að staða Hitaveitu Suðurnesja sé þegar kemur að orkuframleiðslu, eins og fram kom í ræðu hans, bundin af hugsjón raforkugeirans um stóriðju. Það er náttúrlega vegna þess, og ég veit að hv. þm. kemur með skýringu á því, að Hitaveita Suðurnesja er bundin af því að selja stærsta hlutann af afli sínu inn í þennan pott, 30 megavött ef ég man rétt.

Þessi atriði þarf auðvitað að skoða þegar við tölum um smærri einingarnar í raforkuframleiðslunni. Þetta er stóra vandamálið, t.d. í sambandi við Rarik. Neytendur á Rarik-svæðinu sæta afarkostum og þar er orkuverðið dýrast. Ég hygg að ég og hv. þm. séum sammála um þessa þætti. Það er þess vegna sem ég tel brýnt og nauðsynlegt að draga fram heildarmynd af þessu og skoða uppleggið og uppsetninguna á þessu.