Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:16:18 (5795)

2001-03-15 11:16:18# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er laukrétt hjá hv. andmælanda að smærri framleiðendur raforku í landinu eru bundnir af því að selja Landsvirkjun raforku til stóriðju. Í tilviki Hitaveitu Suðurnesja, og væntanlega er það svo með fleiri, er Landsvirkjun seld meiri raforka en viðkomandi fyrirtæki kaupir af Landsvirkjun en fyrirtækið greiðir hins vegar miklu hærra verð fyrir. Það sendir sem sé bæði raforku og peninga til Landsvirkjunar. Ég held að það eigi við um fleiri sem hafa fengið ölmusuheimildir til að framleiða lítið eitt af raforku. Þannig er kerfið í dag.

En það er ekki þetta sem við hv. þm. erum ekki sammála um. Eftir því sem fram kom í máli hans fyrr á fundinum erum við ekki sammála um að þetta frv. eigi að ganga hratt fram. Hann sagði það beinlínis. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sammála því sem kom fram í máli annars af hv. þm. Vinstri grænna í 1. umr. um þetta mál að það hljóti að fara svo ef markmið sveitarfélaga með gjörðum eins og þarna er um að ræða er ekki fest í lög á Alþingi, þá séu þau að falla frá markmiðunum. Ég held að sveitarfélög þurfi engin lög til að standa við markmið sín eða keppa að þeim til fullnustu. Ég held að í þessu tvennu hafi komið fram að við erum ekki sammála um þessi mál í heild sinni, því miður. Ég vona að þetta dugi til þess og það sjónarmið sem hv. þm. rakti hér áðan, dugi til þess að hann fallist á að málið gangi fram vegna þess að það byltir ekki neinu kerfi um raforkumál á Íslandi. Það gerir aðeins einu fyrirtæki af mörgum litlum kleift að stækka aðeins og búa sig betur undir keppnina við þá sem stíga stóru skrefin. Þeir þurfa ekki ný lög. Halda menn að Orkuveita Reykjavíkur þurfi ný lög? Hún er nokkrum sinnum stærri en þetta fyrirtæki sem við erum að tala um. Það vill bara svo til að ríkið á pínulítið í þessu fyrirtæki og þess vegna þarf um það lög.