Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:18:21 (5796)

2001-03-15 11:18:21# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:18]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni ætla ég að ítreka sjónarmið mín í þessu máli. Í sjálfu sér er það alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Árna R. Árnasonar að þetta frv. hefur í sjálfu sér ekki áhrif á aðrar breytingar í skipan raforkumála. Hins vegar hefur rökstuðningurinn með þessu frv. snúist mjög um breytt viðhorf í þeim efnum.

Það kom t.d. fram í máli formanns iðnn., hv. þm. Hjálmars Árnasonar, í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að ógleymdum hv. þm. Kristjáni Pálssyni sem lýsti mikilli ánægju yfir því að menn væru að taka raforkumálin, orkumálin, úr því umhverfi sem þau hafa verið í og færa þau yfir á grundvöll viðskiptanna. Það eru þær grundvallarbreytingar sem eru að eiga sér stað, ekki aðeins hér á landi heldur í Evrópu almennt. Við höfum samþykkt tilskipun Evrópusambandsins um breytingar í raforkumálum, hún tók gildi 1. júlí sl., um breytta skipan sem komið skal á í áföngum og kveður í grundvallaratriðum á um að sundurgreind verði framleiðslan, dreifingin og salan á orkunni. Það snertir að sönnu 4. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um að þetta nýja fyrirtæki skuli hafa með alla þessa þætti að gera að því leyti að fyrirtækið verður nauðbeygt samkvæmt þessari tilskipun til að sundurgreina þessa þætti í bókhaldi sínu.

En með þessum breytingum Evrópusambandsins er sem sagt stefnt að því að færa þennan þátt efnahagskerfisins, þessa grunnstoð, yfir á viðskiptagrunn. Þetta hefur sætt mikilli andstöðu í Evrópu, miklum mótmælum frá verkalýðshreyfingu, hjá því fólki sem starfar í þessum geira, enda ekki að undra vegna þess að þær skipulagsbreytingar sem menn hafa verið að dásama og verið að ráðast í hafa leitt til fjöldauppsagna í orkugeiranum nú þegar og menn sjá fram á meiri samdrátt. Það sem margir óttast er að þessi breyting muni leiða til þess að nokkrir risar annist þessa framleiðslu og í skjóli einokunar muni þeir keyra verðlagið upp og þjónustan muni rýrna eins og reyndin hefur orðið þar sem orkugeirinn eða veitur hafa verið færðar yfir á viðskiptagrunn. Við höfum verið að fylgjast með því að undanförnu í fjölmiðlum hvernig fór fyrir Kaliforníubúum. Við þekkjum dæmin frá Long Island þar sem hægri sinnaðir repúblikanar hagnýttu orkugeirann að kröfu neytenda og fyrirtækja sem töldu hlut sinn afskaplega rýran í viðskiptum við þau einokunarfyrirtæki sem höfðu náð honum undir sig.

Hér á landi hefur orkugeirinn verið byggður upp af samfélaginu. Þar er stærsti eignaraðilinn Landsvirkjun sem framleiðir 90% af allri orku í landinu. Síðan er Rarik sem á drjúgan þátt í dreifingu orkunnar og síðan eru einstakar orkuveitur sem koma þar einnig til sögunnar. En grunnhugsunin með þjóðinni hefur verið sú að við séum ein þjóð í einu landi. Við eigum þessar auðlindir öll saman og eigum að deila þeim saman.

Í þessu frv., sem menn hafa verið að dásama margir hverjir, kveður við allt annan tón. Hér segir t.d. á síðu 2 í greinargerð þar sem lýst er markmiðum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, með leyfi forseta:

,,... að athuga möguleika á því að sveitarfélögin gerist þátttakendur í rekstri orkuveitu, m.a. til að stuðla að lækkun orkuverðs og að koma í veg fyrir að íbúar og fyrirtæki í sveitarfélögunum séu með beinum hætti skattlögð til að standa undir rekstri annarra sveitarfélaga.``

Þetta er allt annar tónn en við höfum heyrt í íslenskri þjóðarsál undanfarin ár og áratugi og við heyrum enn að orkan sé nokkuð sem tilheyri okkur öllum, ekki einstökum sveitarfélögum og náttúrlega alls ekki einstökum eignaraðilum og einstaklingum eins og gerðist því miður með frv. ríkisstjórnarinnar um auðlindir í jörðu þar sem einstaklingum var færð eign á orkunni í jörðinni. Þetta var gert gegn mjög hörðum andmælum stjórnarandstöðunnar á sínum tíma.

Þetta er það fyrirkomulag sem menn vilja fara út í. Þennan tón, sem ég var að vísa í í frv., kvað við í Reykjavík fyrir fáeinum árum þegar Reykvíkingar fóru illu heilli að heimta arð út úr Landsvirkjun og líta á þetta á þeim grundvelli sem menn eru að dásama núna, viðskiptagrunninum, ekki skyldi byggt á samstöðuhugsun heldur viðskiptasjónarmiðum og menn vildu heimta arð út úr Landsvirkjun. Mér finnst hryggilegt að við séum að fara út á þessa braut og ég mótmæli þeim sjónarmiðum sem hér komu fram hjá þeim þingmönnum sem ég vitnaði til áðan, hv. þm. Hjálmari Árnasyni og hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, sem dásömuðu mjög einkavæðingu á þessu sviði. Mér finnst þetta vera óheillaspor þótt ég taki undir hitt sem fram kom hjá hv. þm. Árna R. Árnasyni að frv. sem slíkt þarf ekki að leiða til þessarar niðurstöðu.