Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:31:57 (5800)

2001-03-15 11:31:57# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja. Ég vil, herra forseti, í upphafi víkja að því sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson greindi frá í upphafi ræðu sinnar, þ.e. að þetta frv. var tekið fyrir í hv. iðnn. á auglýstum fundi að því er virðist, án þess að búið væri að afgreiða það úr þinginu, þ.e. hin þinglega meðferð mála að þingið afgreiði mál til nefndar og nefndir fari að vinna í því, og í meðferð þessa máls er ekkert slíkt neyðarástand ríkjandi að þurfi að víkja frá almennum þingsköpum og vinnu þingsins. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. forseta Alþingis á þennan flumbrugang í vinnubrögðum, þessi óþinglegu vinnubrögð. Ekkert í þessu ferli réttlætir í sjálfu sér óþinglega meðferð málsins.

Ég vil líka, herra forseti, taka undir það hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að eðlilegt hefði verið að fleiri aðilar væru kallaðir til umfjöllunar þessa máls en bara þeir sem eru þarna eignaraðilar. Við erum að fjalla þarna um hluta af orkumálum landsins alls, bæði orkuvinnslu, orkudreifingu og eðlilegt að þetta sé allt saman rætt í samhengi og þar komi líka aðrir aðilar að því að allt er þetta hluti af einni heild, öll erum við ein þjóð í einu landi.

Herra forseti. Ég vil líka taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson gat einnig um og var ítarlega rætt við 1. umr. að væntanlegt er frv. til laga um orkumál í landinu og því hefði verið eðlilegt að þetta frv., sú aðgerð sem hér er fyrirhuguð, biði þess frv. og yrði þá hluti af því heildardæmi þegar um það væri fjallað. Þetta vil ég, herra forseti, láta koma fram.

Ég vil síðan víkja að annarri hlið í málinu. Fram hefur komið að fyrirtækið búi ekki við eðlilega samkeppnisaðstöðu og þó að þetta eignarform sé á er þetta í sjálfu sér fyrirtæki sem býr við samkeppni og hefur staðið sig ágætlega. Alrangt er að halda því fram að það að hlutafélagavæða fyrirtæki sé eina formið til að búa fyrirtækjum rekstrarumhverfi þar sem það geti annars vegar staðið skil á skyldum sínum á þjónustu gagnvart neytendum sínum og hins vegar staðið í eðlilegri samkeppni. Það er mesti misskilningur að halda því fram þó að vissulega sé nokkur breyting þar á.

Ég vil einmitt vekja athygli á orðum hv. þm. Árna R. Árnasonar sem hann kom inn á í 1. umr. málsins þar sem hann var að lýsa þessum breytingum og áhrifum þeirra. Þá sagði hv. þm. eitthvað í þá veru að hann vonaðist til að sveitarfélögin gætu eða þeim væri gert kleift að standa að eignarhlut sínum eftir sem áður. En hv. þm. gerði sér fyllilega grein fyrir því að það var alls ekkert á vísan að róa með það.

Það hefur líka komið fram hér að samkeppnin á þessu svæði, í nágrenni Reykjavíkur og Reykjaness, snýst m.a. um orku, um lönd og orku á svæðinu. Nú er það svo að sett voru lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Við vitum að á þessu svæði, einmitt á Reykjanessvæðinu og í heiðalöndunum umhverfis Reykjanessvæðið, er mikil orka í jörðu. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson gat þess einmitt í ræðu sinni áðan að það hefði verið eðlilegt og reyndar miklu meira en eðlilegt, það hefði verið sjálfsagt að óbyggðanefnd hefði fyrst lagt til að farið yrði yfir eignarhöld landa á Reykjanesinu áður en aðrir landshlutar yrðu teknir fyrir því hér er langmest að gerast og hér eru langstærstu hagsmunir í húfi. Þá er jafnframt líka mikilvægast að eignarhöld séu ljós því að falli landið undir það að flokkast undir þjóðlendur lýtur það annarri meðferð en einkalönd eða lönd í eigu einstaklinga eða sveitarfélaga. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vísa einmitt til þessara laga, en þar stendur í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa þar mannvirki, gera jarðrask, nýta hlunnindi, vatns- og jarðhitaréttindi, sbr. þó 5. gr., nema að fengnu leyfi skv. 2. eða 3. mgr. og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti.`` --- Og áfram stendur í 3. gr.:

,,Leyfi forsætisráðherra þarf til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Ráðherra er jafnframt heimilt að leyfa nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum.``

Herra forseti. Það er því alveg ljóst að ráðstöfun auðlinda á þessu svæði, eignarréttur og forráð þeirra, geta breyst ef landið flokkast sem þjóðlenda og við höfum nú kynnst kröfugerð ríkisins í öðrum landshlutum varðandi skilgreiningu á því hvað séu þjóðlendur. Við höfum kynnst því í Árnessýslu, við höfum kynnst því í Skaftafellssýslum þar sem ekki er verið að takmarka sig við heiðalönd heldur kannski allt til sjávar í kröfugerð eins og á sér stað í Skaftafellssýslunum. Þarna er þó ekki um miklar auðlindir að ræða, ekki verið að takast á um það, a.m.k. að svo stöddu, en kröfugerðin er augljós þar og sú stefna sem þar er lögð upp. Ég leyfi mér að benda á kröfugerð ríkisins sem bændur og aðrir íbúar á þessum svæðum eru beittir og á þá ásýnd ríkisvaldsins sem þar birtist. Ef við upplifum með sama hætti kröfugerð á Reykjanesi þá færi að sneiðast um réttindi einstaklinga og sveitarfélaga á þeim svæðum sem nú er verið að keppa um orkuréttindi. Að vísu hefur ekki verið felldur dómur varðandi þessa kröfugerð ríkisins á hendur bændum og landeigendum á þeim svæðum sem ég hef nefnt hér, en krafa ríkisins er ljós og hún hefur komið fram.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra sem hér eru og bera ábyrgð á kröfugerð ríkisins varðandi kröfur til þjóðlendna því að það er ríkisstjórnin öll sem ber ábyrgð á því, og þó að hæstv. fjmrh. sé sá sem hefur daglega verkstjórn á því, er hann bara hluti og einn af ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á þeim kröfum sem settar eru fram í nafni ríkisstjórnarinnar og nafni einstakra ráðherra. (Gripið fram í.) Þetta er ekki vitleysa, hv. þm. Fróðlegt væri að vita hvenær kröfugerð af hálfu ríkisins verður sett fram á Reykjanesi. Þar eru miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir einstaklinga, sveitarfélög og ríkið. (Gripið fram í: Eftir fimm ár.) Hvers vegna er byrjað á einstökum bændasamfélögum í þessari kröfugerð? Hvers vegna er ekki farið á þau svæði þar sem virkilega er nauðsyn að taka á málum eins og á Reykjanessvæðinu, eins og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins?

Ég ítreka að það hefði átt að vera fyrsta svæðið að mínu mati til að taka til þessarar skoðunar þannig að þessi mál væru ljós, þannig að allir hefðu á hreinu hvað um væri að ræða. Það er erfitt að fjalla um samkeppnishagmuni þessa fyrirtækis hér sem hv. þm. hafa einmitt vikið að að snúist um kapphlaup um þessi réttindi að stórum hluta. Að það skuli þá ekki jafnframt vera forgangsverkefni af hálfu ríkisstjórnarinnar að kveða skýrt á um það, úrskurða um það hver eigi þessi lönd.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að beina þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar að þetta land verði nú þegar tekið til skoðunar í samhengi við þjóðlendulögin, varðandi ákvörðun um það hvort þetta land flokkast sem þjóðlenda eða einkaland. Það sé sett núna á oddinn sem krafa númer eitt og ég bið um stuðning við það, herra forseti.