Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:47:31 (5803)

2001-03-15 11:47:31# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að fram komi að öllum eigendum Hitaveitu Suðurnesja og Hafnarfjarðarbæ, sem er eini eigandinn að Rafveitu Hafnarfjarðar, er ljóst að væntingar þeirra um virkjanir annars staðar en í eignarlöndum eiga undir framkvæmd laganna um þjóðlendur. Það merkir þó ekki að bíða þurfi með þetta mál eftir því hvernig óbyggðanefnd vinnur úr verkefnum sínum, síður en svo.

Ég verð hins vegar að taka fram, vegna orða hv. þm. um meðferð málsins, að það vill svo til að þingmálin eru mismunandi umsvifamikil og misflókin. Þetta er hvorki umsvifamikið né flókið.