Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:53:47 (5807)

2001-03-15 11:53:47# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:53]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf í raun ekki að ítreka það sem hér hefur komið fram. Það hefur margsinnis gerst í sögu Alþingis, að mál hafi verið tekin fyrir með þessum hætti, hafi nefndarmenn verið því sammála. Vinstri grænir höfðu alla burði til að gera athugasemd við það en kusu að gera það ekki fyrr en eftir á. Hver á að meta? Það eru þá væntanlega nefndirnar og allir nefndarmenn.

Allir nefndarmenn í hv. iðnn. sem voru á fundinum voru sammála. Það hefði í sjálfu sér litlu breytt, miðað við röksemdafærslu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þó að fundurinn hefði formlega farið fram fimm eða tveimur klukkutímum síðar. Atkvæðagreiðslan fór fram síðar þennan sama dag. Málið var ekki endanlega afgreitt út úr nefndinni fyrr en eftir að atkvæðagreiðslan hafði farið fram og málinu hafði formlega verið vísað til nefndarinnar. Þá gat hv. fulltrúi vinstri grænna andmælt því en hann gerði það ekki. Þetta er því ekkert annað en orðhengilsháttur í takt við vinstri græna.