Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:00:33 (5811)

2001-03-15 12:00:33# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst að miklu meiri hagsmunir eru í húfi á öðrum stöðum ef við lítum á þjóðlendur og kröfur óbyggðanefndar. Bændur þar eru náttúrlega að vinna í sínum málum og störf óbyggðanefndar eru alls ekki til umræðu í þinginu. Þetta er bara orðhengilsháttur og í rauninni aðferð, finnst mér, til þess að gera mjög þarft mál tortryggilegt í augum fólks. Hér er verið að berjast fyrir einhverju mesta framfaramáli sem upp hefur komið á suðvesturhorninu í langan tíma og það er þá orðið meginmarkmið vinstri grænna að reyna að koma í veg fyrir að það nái fram að ganga í þinginu. Allir vita sem þekkja til starfa óbyggðanefndar að þetta eru mjög flókin störf, og vera að blanda þessu saman í einn graut bendir einungis til þess eins að framfaramál í augum þessara hv. þm. eru tabú, eitthvað sem enginn á helst að gera og það hefur reyndar ítrekað komið hér fram í umræðum, því miður.