Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:21:01 (5819)

2001-03-15 12:21:01# 126. lþ. 90.3 fundur 542. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímareglur EES o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:21]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. við 1. umr. málsins en það er mjög brýnt að farið verði mjög rækilega yfir það í starfi félmn. sem mun væntanlega fá það til umfjöllunar. Þó vil ég gera örfáar athugasemdir eða koma fram með örfá sjónarmið.

Verið er að gera breytingu á lögum sem eru 20 ára gömul, á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þessum lögum hefur aldrei verið framfylgt. Þannig segir í 66. gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Heilsuvernd starfsmanna skal falin þeirri heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi, sem næst liggur og/eða auðveldast er að ná til.``

Síðan er í greinum þar á undan skilgreint hvað felist í þessari heilsuvernd. Þetta hefur aldrei verið gert. Þetta hefur aldrei nokkurn tíma verið gert. Hvernig stendur á því að þessum 20 ára gömlu lögum hefur ekki verið framfylgt að þessu leyti? Ekki hefur verið sinnt lögbundnum kvöðum í þessum efnum. Það er vegna þess að atvinnurekendur hafa staðið gegn þeim. Þeir hafa staðið gegn því að hin opinbera heilsugæsla sinni þessu hlutverki og þeir hafa neitað öllu samstarfi í þessu efni um langan tíma. Þetta er staðreynd málsins.

Hvers vegna hafa heilsugæslustöðvarnar þá ekki sýnt frumkvæði í málinu? Ástæðan er sú að fjármagn skortir til slíks. Það er þetta sem hefur staðið í vegi fyrir framkvæmd laganna í reynd.

Nú er það svo að framkvæmd þessara laga kostar peninga, hvort sem er með gamla laginu eða hinu nýja sem eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. opnar á að aðrir aðilar en hin opinbera heilsugæsla sinni þessu hlutverki, þá mun það engu að síður kosta peninga og það þarf að ná í þá peninga. Rynnu þeir til heilsugæslunnar staðhæfi ég að hún mundi geta sinnt þessu hlutverki bærilega. Það sem ég held að komi til með að gerast ef opnað verður á þá leið að einstök fyrirtæki sérhæfi sig á þessu sviði er að þá muni fara líkt og gerðist með Rafmagnseftirlitið og þær eftirlitsstofur sem sinna rafmagnseftirliti, einkavæddar. Þær verða stórar og fáar --- ég held að það sé einn eða tveir aðilar sem sinna rafmagnseftirlitinu núna, báðir á höfuðborgarsvæðinu --- þannig að þessi sérhæfing mun þýða nákvæmlega þetta. Ég óttast að það muni gerast. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi nefna.

Þetta frv. byggir að hluta til á starfi nefndar sem var falið að semja drög eða grunn að frv. Það starf var unnið á vegum Vinnueftirlits ríkisins. Sú nefnd sem var skipuð fulltrúum úr atvinnulífinu, verkalýðshreyfingu og atvinnurekendum skilaði af sér á miðju ári 1999, í júnímánuði 1999 ef ég man rétt. Þar höfðu menn reynt að komast að samkomulagi. Þau sjónarmið sem ég var að lýsa sem mínum og var mjög eindregið haldið fram af samtökum á borð við BSRB, þau sjónarmið urðu undir í nefndinni og það var mælst til þess að það yrði opnað á þessa möguleika. Ég er ekki alveg sáttur við það en þau sjónarmið urðu engu að síður undir, það er staðreynd. En sjónarmið sem urðu ofan á og mér eru að skapi lúta að skilgreiningu á heilsueftirlitinu. Vegna þess að menn hafa tekist á um það einnig.

Á Norðurlöndum hefur þetta verið mjög mikið til umræðu og Norðurlandaþjóðirnar hafa farið mismunandi leiðir í þessum efnum. Þannig hafa Norðmenn svo að dæmi sé tekið skilgreint þetta heilsueftirlit mjög þröngt og mér sýnst að sú leið sé farin í þessu frv. og það finnst mér vera vel. Finnar hafa á hinn bóginn skilgreint hlutverk sitt eða hlutverk heilsufarseftirlits á vinnustöðum mjög vítt og þar hafa yfirvöld farið þá leið að veita fyrirtækum skattafslátt ef þau sinna heilsufari starfsmanna sinna. Menn hafa sagt sem svo: Það er hagur allra, fyrirtækisins ekki síður en starfsmannanna að heilsufari þeirra sé vel sinnt og þið skuluð endilega taka þetta að ykkur og við skulum ívilna ykkur í sköttum. Þetta hefur reynst þannig að starfsmenn margra fyrirtækja sem hafa farið inn á þessa braut þurfa ekki að bíða í biðröðum á heilsugæslustöðvunum heldur er þetta gert í vinnutímanum og það eru fyrirtækin sem sinna þessu. Biðraðirnar eru enn þá til og í þeim er fólk sem stendur utan vinnumarkaðarins. Það eru börnin. Það er gamla fólkið, það eru öryrkjarnir og það er atvinnulaust fólk. Það er að verða til tvenns konar heilsukerfi í landinu, fyrir þá sem eru vinnandi og hina sem standa utan atvinnulífsins.

Mér finnst þetta ekki vera æskileg þróun. Mér finnst vinnustað mínum ekkert koma við hvernig mér heilsast að öðru leyti en því sem ég vil upplýsa um það. Ég vil eiga það við sjúkrahús mitt eða lækni minn, ekki við þann atvinnurekanda sem ég starfa hjá. Mér finnst sú samtvinnun vera varasöm. Síðan hafa menn náttúrlega séð þetta fara inn á nýjar brautir einnig vegna þess að fyrirtækin er, með því að taka á sig þessar skuldbindingar, taka við skatta\-ívilnunum, en taka á sig þessar skuldbindingar að taka á sig jafnframt ákveðna áhættu. Sá einstaklingur sem reynist ekki vera heilsuhraustur er íþyngjandi peningalega fyrir fyrirtækið. Hvað gerir fyrirtækið þá? Það tryggir sig gegn slíkri hættu, gegn slíkum áföllum. Heilbrigðistryggingarnar í Finnlandi eru að fara inn ná þessa braut og reyndar má sjá merki þess núna í Danmörku einnig. Það voru fréttir af því frá Danmörku að fyrirtæki, gott ef það var ekki bara danski pósturinn, hefði keypt tryggingu fyrir alla starfsmenn sína. Það eru því átök um það hvert eigi að stefna á þessu sviði, hvort eigi að fara með heilsugæsluna út í atvinnulífið, inn á vinnustaðina eða hvort við eigum að halda okkur við það fyrirkomulag sem við höfum búið við í grófum dráttum. Mér finnst þetta ekki alveg skýrt í þessu frv. Hvað þetta snertir segir hér í 7. gr., með leyfi forseta:

[12:30]

,,Heilsuvernd starfsmanna skal að því leyti sem ekki er unnt að veita hana innan fyrirtækis falin þeirri heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi sem næst liggur og/eða auðveldast er að ná til eða öðrum viðurkenndum þjónustuaðila sem fengið hefur leyfi Vinnueftirlits ríkisins til að annast heilsuvernd starfsmanna í samræmi við reglur sem settar eru af stjórn þess.``

Þarna er gengið út frá því að hin almenna regla sé sú að heilsuverndinni sé sinnt innan fyrirtækisins.

Í fyrrnefndri skýrslu sem skilað var í júní 1999 er kveðið sérstaklega á um þennan þátt, hvernig skilgreina eigi hlutverk heilbrigðiseftirlits á vinnustöðum. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 17:

,,Heilbrigðisstarfsmenn heilsuverndar starfsmanna framkvæma heilsueftirlit sem bundið er í reglum eða lögum. Þeir annast ekki almenna heilsugæslu starfsmanna en sjá um sérstakar skoðanir samkvæmt því sem kveðið er á um í umræddum reglum og tengjast áhættuþáttum í vinnuumhverfinu.``

Þetta er þröng skilgreining og mér mjög að skapi. Ég held að æskilegt sé að fylgja þessum leiðarvísi og ég hefði viljað sjá þetta fest inn í lögin. Það má vel vera að þessi sjónarmið komi fram í lögunum en ég hefði viljað að þetta yrði fest inn í lögin.

Ég kem fyrst og fremst upp til að leggja áherslu á nokkur meginsjónarmið og vil minnast á eitt atriði áður en ég lýk máli mínu. Það lýtur að tilkostnaðinum. Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar um fjármögnun. Ég geri mér ekki alveg fyllilega grein fyrir því hvernig það mál verður. Hins vegar er ljóst að Vinnueftirlitið þarf að koma að þessum málum og þetta gert í nánu samráði við það. Það segir hér, með leyfi forseta, í 7. gr. sem ég vitnaði til áðan:

,,Heilsuvernd starfsmanna sem veitt er innan fyrirtækis skal byggjast á áhættumati skv. 13. gr. A í samræmi við reglur stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.`` --- Heilsuvernd ríkisins verður afgerandi í þessu eftirlitskerfi.

Í skýrslunni margnefndu segir á bls. 21, með leyfi forseta:

,,Heilsuvernd starfsmanna hefur í för með sér umtalsverðan kostnað við undirbúningsvinnu og stjórnun að hálfu Vinnueftirlitsins. Nefndin leggur áherslu á að Vinnueftirlitið getur einungis mætt þessum aukna kostnaði með því að hlutur stofnunarinnar í tryggingagjaldi verði óbreyttur frá 1998, þ.e. 0,06%.``

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði mér í morgun um hlut Vinnueftirlitsins núna í tryggingagjaldi, er hann 0,048%, þ.e. mun rýrari en gert er ráð fyrir í álitsgerð þeirra sem stóðu að skýrslu Vinnueftirlits ríkisins frá því í júní 1999. Ég tel mjög brýnt að efla Vinnueftirlitið, efla fjárhagslegan grundvöll Vinnueftirlitsins og það verði gert eftir að þessi lög koma til framkvæmda.