Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:39:17 (5821)

2001-03-15 12:39:17# 126. lþ. 90.3 fundur 542. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímareglur EES o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:39]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum enn eitt gott og sjálfsagt mál sem kemur frá Evrópusambandinu sem ætlað er að gæta þess að fólk vinni ekki of mikið. Það á að gæta þess að menn verði ekki veikir, allt mjög gott og gilt en þetta eru kvaðir á atvinnulífið. Eftirlitsiðnaðurinn vex. Atvinnulífið hefur kvartað undan því að hann vaxi og vaxi. Verði ekki spyrnt við fótum þá munum við hugsanlega lenda í sömu gryfju og öll Evrópa, með 10% varanlegt atvinnuleysi sem er nánast eins og náttúrulögmál. Það stafar af sífellt meiri kvöðum á atvinnulífið sem minnka getu þess til nýsköpunar og þrengja að vilja manna til að stunda atvinnurekstur.

Hér eru þær kvaðir settar á fyrirtæki að þau geri mat á áhættu í störfum. Hvað þýðir það? Getur mönnum skrikað fótur í stiga einhvers staðar eða hvað er áhætta í starfi? Er raunveruleg áhætta af vélum sem sjálfsagt er að taka tillit til? Hversu langt mega menn ganga í að setja reglur um áhættu? Allt er þetta háð vilja embættismanna stofnana ríkisins sem oft og tíðum hafa lítinn skilning á þörfum atvinnulífsins svo sem margir hv. þm. sem aldrei hafa rekið fyrirtæki og vita ekki hvað atvinnurekstur er.

Menn sitja og unga út fallegum reglum. Oft og tíðum erum við Íslendingar kaþólskari en páfinn og skerpum á þeim reglum sem Evrópusambandið býr til á færibandi. Við aukum aðeins við og atvinnulífið kvartar og kveinar undan eftirlitsiðnaðinum og flóknum reglum, því að reksturinn snúist ekki um að framleiða vörur og þjónustu heldur að fullnægja kröfum hins opinbera.

Hér höfum við tilskipun um heilsuvernd sem er mjög góð og gild en eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á þá kostar hún peninga. Þeir peningar verða náttúrlega teknir einhvers staðar frá. Þetta eru iðulega mjög skynsamlegar aðgerðir. Það er betra að hafa heilbrigt fólk í vinnu en sjúkt. Það getur verið skynsamlegt að senda menn til læknis reglulega. Gott og vel. Sé það skynsamlegt þá býst ég við að fyrirtækin geri það sjálf. Hér á hins vegar að þvinga menn til þess og það getur leitt til þess, eins oft gerist þegar á að fara að gera einhverjum gott með svona lagareglum, að maður gerir honum illt. Fyrirtækin munu passa sig á að ráða ekki fólk sem ekki er algerlega heilt til vinnu. Það getur orðið til þess að eldra fólk eða veikt ætti t.d. erfiðara með að fá vinnu. Svona reglur geta oft slegið til baka.

Varðandi þann langa og stranga vinnudag sem Íslendingar hafa vanið sig á þá held ég að þar sé oft skipulagsleysi og lélegri stjórnun um að kenna. Á því má gjarnan ráða bót. Að það gerist með tilskipun, það held ég ekki. Ég held að betra sé að hvetja fyrirtækin til að skila arði og nýta betur mannaflann þannig að vinnutíminn verði ekki óhóflega langur.

Það er staðreynd að maður sem vinnur til kl. 11 hvert kvöld er ekki sérstaklega skarpur til vinnu alla daga. Það getur verið að hann mundi skaffa meira ef hann hætti kl. 6 eða 7. Þetta hafa menn fyrir löngu uppgötvað þannig að þessar álögur sem hér er verið að búa til þarf að skoða mjög nákvæmlega. Við þurfum að athuga hvað gera þarf til að uppfylla reglur Evrópusambandsins sem við höfum skrifað undir. Við þurfum líka að hafa skilning á þörfum og nauðum atvinnulífsins sem stendur undir öllum þeim lífskjörum sem við njótum, bæði velferðarkerfinu og lífskjörum þjóðarinnar í heild.