Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:44:23 (5822)

2001-03-15 12:44:23# 126. lþ. 90.3 fundur 542. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímareglur EES o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar nokkrar merkilegar ræður um málið sem liggur fyrir. Ég held að að frátalinni ræðu hv. þm. Péturs Blöndals þá hafi allir þeir sem hér hafa talað verið sammála um að í þessu frv. sé að finna ákvæði sem hniki aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum nokkuð fram á við.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat að vísu um tiltekið atriði sem hann er ósáttur við en mælti ekki á móti því að hér væri um að ræða framfaraskref. Mér finnst, herra forseti, að þetta sýni í hnotskurn eðli samningsins sem við Íslendingar gerðum um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Sá samningur er oftast tengdur framförum og ávinningi í atvinnulífinu. Hann er oftast tengdur ávinningi í formi skattalækkana sem sannarlega lyfti undir greinar sem tengdust sjávarútvegi á Íslandi. Raunar hefur það komið fram oftar en einu sinni að umræddur samningur á að öllum líkindum stóran þátt í grundvelli þeirrar efnahagslegu velsældar sem ríkir á Íslandi í dag.

[12:45]

Á þessum samningi er hins vegar önnur hlið. Það er sú hlið sem snýr að félagslegum réttindum launamanna á Íslandi. Ég held að ekki sé ofmælt, herra forseti, að obbinn af réttindabótum sem íslenskir launamenn hafa náð fram á síðustu árum hefur komið frá Evrópu, hefur komið í krafti tilskipana. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að það er afskaplega lítið sem hægt er að benda á í formi félagslegra réttindabóta á Íslandi sem hefur ekki með einum eða öðrum hætti átt uppruna sinn úti í Evrópu. Það stafar ekki síst af þeirri staðreynd, herra forseti, að jafnaðarmenn hafa verið ákaflega áhrifaríkir á stjórn Evrópusambandsins. Þar hafa menn verið við völd sem hafa lagt mikla áherslu á að bæta kjör og aðbúnað fólks, almennings í viðkomandi löndum. Þetta skiptir máli, herra forseti, og það frv. sem hér liggur fyrir, sem útfærir ákveðnar tilskipanir sem hafa komið frá Evrópusambandinu, sýnir í hnotskurn það sem ég er að segja hérna, að Evrópska efnahagssvæðið og aðild okkar að því hefur ekki bara fært okkur beina efnahagslega ávinninga heldur líka félagslegar réttindabætur.

Í þessu frv. er að finna ýmis mál sem íslenskir launþegar hafa barist fyrir árum saman og það er fyrst þegar tilskipun kemur um það frá ESB sem við sjáum það rata inn í íslenska löggjöf.

Í þessu frv. er vitaskuld sitthvað sem vert er að skoða ákaflega vel. Ég held hins vegar að langflest ákvæðanna sem liggja fyrir séu mjög jákvæð og horfi til bóta. Það eru nokkur sem mig langar að fara yfir og örfáar spurningar sem mig langar að varpa fram til hæstv. félmrh. Ég veit að vísu að hæstv. ráðherra þurfti að víkja af vettvangi. Hann er bundinn við skyldustörf annars staðar en ég varpa eigi að síður fram óskum til hans um svör við ákveðnum spurningum og þær geta þá verið teknar upp til skoðunar sérstaklega í nefndinni sem um þetta fjallar.

Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að nú þegar, áður en þetta frv. kom frá þeirri nefnd sem samdi það, var búið að leiðrétta í mikilvægum efnum aðbúnað íslenskra launamanna. Ég vísa sérstaklega til þess að árið 1997 var breytt, í samræmi við tilskipunina sem hér er m.a. verið að fjalla um, lögum frá 1980 um lágmarkshvíldartíma Íslendinga. Þá var hvíldartíminn aukinn úr 10 klukkustundum í 11 klukkustundir. Það var ákaflega mikilvægt að þetta var gert. Þetta kemur fram, herra forseti, í frv. á bls. 9. Hér er sömuleiðis verið að taka á margvíslegum málum sem tengjast öryggi starfsmanna. Mér finnst það t.d. ákaflega mikilvægt sem kemur fram í 2. gr. frv. en þar er verið að taka upp það ákvæði viðkomandi tilskipunar um að atvinnurekandi eigi að framkvæma og tryggja að skriflegt áhættumat sé fyrir hendi sem hefur að geyma greiningu á ýmsum áhættuþáttum í starfsumhverfi sem tengjast öryggi og heilsu starfsmanna. Þessari áætlun á síðan að fylgja eftir með áætlun um forvarnir og ráðstafanir um heilsuvernd. Er þetta ekki jákvætt, herra forseti? Ég hefði talið að þetta væri jákvætt frá sjónarhóli bæði starfsmannanna og líka fyrirtækisins. Það mátti ráða af máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að honum þætti þetta vera kostnaðarauki, aukin byrði fyrir atvinnulífið, en eigi að síður hlýtur það að vera svo að ef við horfum á þetta frá hinum þrönga sjónarhóli atvinnulífsins, get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að það sé ákaflega jákvætt fyrir fyrirtæki að hafa heilsuhraustan starfsmann, að hafa starfsmann sem líður vel. Ég held að fjölmargar kannanir hafi sýnt það að þegar vinnuandi er góður, þegar fólkinu líður vel, þegar heilsa þess er góð, þegar öryggi þess er tryggt, þá vinnur starfsfólkið betur, það vinnur betur að hag fyrirtækisins. Arður fyrirtækisins ætti að aukast við þetta, þannig að ég mundi telja, herra forseti, að það sem hv. þm. sagði hérna, hafi ég skilið hann rétt, eigi ekki við rök að styðjast. Ég held að hér sé um að ræða fjárfestingu sem skilar sér í aukinni framleiðni hjá fyrirtækinu. Ég segi sem jafnaðarmaður að það er ákaflega mikilvægt að fá ákvæði af þessu tagi inn í lögin.

Mér finnst líka gott að í 3. gr. er verið að skilgreina nákvæmar hvað átt er við með orðinu starfsmaður í lögunum frá 1980. Í þessum lögum er lagt til að þetta hugtak nái líka til nema og lærlinga án tillits til þess hvort þeir gegni launuðum störfum. Mér finnst þetta ákaflega mikilvægt vegna þess að við vitum auðvitað að ekki síst vegna reynsluleysis og ungs aldurs er það líklegt að e.t.v. einmitt nemar og lærlingar geti lent í óhöppum eða slysum á vinnustað. Þá skiptir ákaflega miklu máli að það sé skilgreint að sú vernd sem kemur fram í frv. nái líka yfir nema og lærlinga jafnvel þó að þeir gegni ekki launuðum störfum.

Eitt af því sem ég hefði viljað varpa fram sem spurningu til hæstv. félmrh. varðar þær breytingar sem gerðar eru í 4. gr. frv. Þar er lagt til, herra forseti, að við tiltekinn staflið 38. gr. núgildandi laga komi viðbót. 38. gr. tilheyrir V. kafla þar sem mælt er fyrir um framkvæmd vinnu. Sá kafli byrjar á því að sagt er að vinnunni skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í greininni þar á eftir er sagt frá því að stjórn Vinnueftirlitsins skuli setja nánari reglur um það hvernig haga eigi framkvæmd vinnunnar, m.a. með tilliti til þeirra sem vinna við of mikið álag og lagt er til að þar sé bætt við m.a. að stjórn Vinnueftirlitsins eigi að setja reglur um hvernig eigi að haga framkvæmd vinnu til þess að hægt sé að draga úr, með leyfi forseta, svo að ég vísi í greinina ,,áhrifum andlega eða líkamlega einhæfra starfa og starfa sem unnin eru með fyrir fram ákveðnum hraða.``

Þarna er komið, herra forseti, að ákaflega mikilvægu efni. Hérna er verið að leggja til að settar verði sérstakar reglur um það hvernig eigi að draga úr neikvæðum áhrifum ákvæðisvinnu eða bónusvinnunnar. Þetta er eitt af því sem hefur verið umdeildast varðandi t.d. sjávarútveg okkar. Það liggur fyrir að sérstaklega konur sæta miklu álagi, verða fyrir miklu líkamlegu sliti vegna bónusvinnunnar. Margar kannanir hafa verið gerðar hér á landi, m.a. á vegum vinnuverndarhóps Alþýðusambands Íslands fyrir u.þ.b. einum áratug, sem leiddu þetta í ljós. Ég tel þess vegna að það sé mikilvægt, herra forseti, að stjórn Vinnueftirlitsins sé nú komin með skýrt umboð, að þessu frv. samþykktu, til að setja reglur sem gætu dregið úr neikvæðum afleiðingum þessa. Það held ég að sé mjög af hinu góða.

Að lokum er eitt atriði annað, herra forseti, sem ég hefði viljað vekja eftirtekt á og spyrja hæstv. félmrh. um. Það varðar 5. gr. frv. Hún fjallar um breytingar á IX. kafla laganna þar sem er m.a. mælt fyrir um hámarksvinnutíma, frídaga og hvíldartíma. Í 1. mgr. c-liðar er sagt að haga skuli vinnutíma þannig að a.m.k. 11 klukkutíma samfelld hvíld sé tryggð sérhverjum starfsmanni á hverju 24 klukkustunda tímabili. Síðan koma hins vegar ákveðin frávik frá þessari meginreglu. Í 2. mgr. er t.d. lögð til heimild til viðkomandi fyrirtækis, að vísu með samningum við aðila vinnumarkaðarins, um að stytta megi samfelldan hvíldartíma úr 11 í allt að 8 klukkustundum ef ákveðin frávik sem þar eru reifuð gera það nauðsynlegt. Í 3. mgr. er sömuleiðis mælst til þess að hægt sé að fresta samfelldri hvíld til þess að koma í veg fyrir verulegt tjón. Þetta er ákaflega skiljanlegt frávik, herra forseti.

Síðan segir hins vegar í 4. mgr. að til samræmis við þau skilyrði sem vinnutímatilskipunin setur um lágmarkshvíldartíma skuli starfsmaðurinn fá samsvarandi hvíld síðar. Svo segir, með leyfi forseta: ,,Ef því verður af hlutlægum ástæðum ekki komið við skal starfsmaðurinn þess í stað fá viðeigandi vernd.``

Herra forseti. Ég hnýt um þetta. Ef ekki er hægt að tryggja viðkomandi starfsmanni nauðsynlega hvíld hvernig á þá að tryggja honum í staðinn viðeigandi vernd? Þetta hefði ég viljað spyrja hæstv. ráðherra um, herra forseti, en eins og ég hef þegar sagt í ræðu minni þá þurfti hæstv. ráðherra að bregða sér frá. Ég hef fullan skilning á því en ég mælist til þess að þetta tiltekna atriði verði tekið til sérstakrar skoðunar af hv. félmn.

Að endingu, herra forseti, vil ég ítreka að ég tel að í þessu frv. sé um að ræða mjög mörg framfaraspor. Ég tel að þetta sýni svart á hvítu að sá ávinningur sem við höfum haft af því að vera aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu kemur ekki einungis fram í því að við höfum fengið lægri tolla, ekki einungis fram í því að fyrirtæki í sjávarútvegi geta nýtt sér betur markaði úti í Evrópu vegna tollalækkana. Ávinningurinn kemur líka fram í auknum félagslegum réttindum fyrir starfsfólk.

Aðeins um það, herra forseti, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi hérna að því er varðaði framkvæmd heilsuverndar. Ég tek heils hugar undir með honum að þarna er sitthvað sem við þurfum að skoða ákaflega vel. En það er einfaldlega þannig að heilsugæslustöðvarnar í landinu, sökum annríkis og sökum þess að ríkisstjórnin hefur ekki tryggt þeim nægilegt fjármagn, hafa ekki getað uppfyllt að öllu leyti þær skyldur sem lagðar eru á herðar þeim með núgildandi lögum. Það gildir ekki aðeins að því er varðar heilsuvernd starfsmanna í fyrirtækjum, heldur margt fleira. Ég nefni bara tóbaksvarnir, herra forseti. En það er samt sem áður þannig að þrátt fyrir að ákvæði laganna frá 1980, um heilsuvernd, hafi ekki komið til almennrar framkvæmdar hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir hér á landi, einkum stærri fyrirtæki sem hafa tengst framleiðslu sem er þess eðlis að hún felur í sér ákveðna hættu, ég nefni stóriðju eins og álverið í Straumsvík, Kísiliðjuna við Mývatn og járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Þessi fyrirtæki hafa keypt sér þjónustu sem felur í sér heilsuvernd á vinnustað. Þessi þjónusta hefur yfirleitt verið partur af samningum viðkomandi fyrirtækja við starfsmennina. Ég tel að þetta sé mjög af hinu góða. Ég tel að það sé ákaflega jákvætt að einstaklingurinn njóti bæði þeirrar verndar sem felst í þjónustu heilsugæslustöðvar sem hann eins og hver annar almennur borgari getur notfært sér en að auki sé fylgst með heilsu hans á vinnustað. Það getur ekki annað en verið viðkomandi starfsmanni til góða og að sjálfsögðu kemur það fyrirtækinu einnig til góða.

Ýmsar leiðir hafa hins vegar verið til þess að verða fyrirtækinu út um þessa tegund heilsugæslu. Heilsugæslustöðvar, sums staðar sjúkrahús úti á landi, hafa veitt hana en jafnframt sjálfstætt starfandi einstaklingar. Ég held, herra forseti, að þetta sé þáttur sem þurfi að styrkja verulega. Auðvitað þarf að sjá til þess að lögum um heilsuvernd og heilsugæslu sé hrint til framkvæmda. Ég held að ýmislegt sem er að finna um aðbúnað og heilsuverndarþáttinn í þessu frv. hnígi að því að auðveldara verði að framfylgja lögunum að þessu leyti.