Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 13:49:27 (5825)

2001-03-15 13:49:27# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. minni hluta ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Þetta er nál. minni hluta heilbr.- og trn.

Frumvarp það sem hér er til umræðu á rætur sínar að rekja til dóms Hæstaréttar í máli nr. 125/2000, svokölluðu öryrkjamáli. Í því máli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka, sbr. 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar voru að leggja fram frumvarp til laga um breyting á lögum um almannatryggingar. Í því frumvarpi, sem síðan varð að lögum nr. 3/2001, var einungis dregið úr skerðingu á tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka í stað þess að afnema hana. Stjórnarandstaðan mótmælti þessari málsmeðferð, enda taldi hún hana ekki fullnægja dómi Hæstaréttar, og er vísað til ítarlegs nefndarálits sem minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar skilaði í því máli. Dómur Hæstaréttar tók ekki beint til ellilífeyrisþega og sama gilti um lög nr. 3/2001, þó svo að sterk rök væru fyrir því að sömu sjónarmið ættu við um ellilífeyrisþega og Hæstiréttur hafði sem rök fyrir niðurstöðu sinni varðandi örorkulífeyrisþega.

Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar má segja að ríkisstjórnin hafi nú fallist á að sömu sjónarmið eigi að gilda um réttindi ellilífeyrisþega og gilda um réttindi örorkulífeyrisþega. Einungis er þó talið að þessi sjónarmið eigi að gilda til framtíðar, en réttur ellilífeyrisþega aftur í tímann er ekki viðurkenndur. Þessu mótmælir minni hlutinn og bendir á að á tímabilinu 1. janúar 1994 til 31. desember 1998 var ákvæði, sem skerðing tekjutryggingar vegna tekna maka byggðist á, hvort sem um var að ræða örorkulífeyrisþega eða ellilífeyrisþega, að finna í reglugerð nr. 485/1995. Þessa reglugerð taldi Hæstiréttur skorta lagastoð og á þeim grundvelli taldi hann skerðinguna óheimila. Þar sem skerðing tekjutryggingar ellilífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka byggðist á þessari sömu reglugerð má ljóst vera að þeir hljóta að eiga sama rétt á endurgreiðslu og örorkulífeyrisþegar, að minnsta kosti hvað varðar fyrrgreint tímabil. Þessi staðreynd er algerlega hunsuð í frumvarpi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Hjá fulltrúum eldri borgara, sem komu fyrir nefndina, kom fram að þeir hefðu sett fram þau sjónarmið sín á fundum með ríkisstjórninni að þeir teldu að félagsmenn sínir ættu rétt á greiðslum aftur í tímann, og þá allt aftur til ársins 1994, eða að minnsta kosti jafnlangt aftur og öryrkjar verða taldir eiga þann rétt. Ekki var brugðist við þessu í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Þrátt fyrir þennan annmarka sem eldri borgarar töldu vera á frumvarpinu kváðust þeir sáttir við það, svo langt sem það næði, enda takmarkaði það ekki möguleika félagasamtaka þeirra eða einstakra félagsmanna á því að sækja frekari rétt til dómstóla. Það kom jafnframt fram í máli þeirra að þeir væntu kjarabóta við þá endurskoðun á almannatrygginga löggjöfinni sem nú fer fram.

Minni hlutinn vill benda á að í frumvarpinu er með sama hætti og í frumvarpinu, sem lagt var fram í kjölfar öryrkjadómsins, verið að lögfesta reglu sem felur í sér mun hærra skerðingarhlutfall gagnvart eigin tekjum lífeyrisþega en tíðkast annars staðar í lífeyristryggingum almannatrygginga. Meginregla almannatryggingalaga er sú að tekjutrygging skerðist um 45% af þeim tekjum sem eru umfram tiltekið frítekjumark en nýja reglan, sem lögfest hefur verið gagnvart öryrkjum og nú er lögð til gagnvart ellilífeyrisþegum, mælir fyrir um tæplega 67% skerðingarreglu gagnvart eigin tekjum lífeyrisþega, þ.e. lífeyrisþegans með lægri tekjurnar í hjónabandi eða sambúð. Eftir að lög nr. 3/2001 tóku gildi kom í ljós að þeir sem þetta nýja ákvæði varðar eru nánast eingöngu konur eða 98%.

Í ljósi áðurgreindrar staðreyndar tekur minni hlutinn undir þau sjónarmið sem fram komu í máli þeirra Elsu Þorkelsdóttur, lögfræðings og eins af sérfræðingum Evrópuráðsins í jafnréttismálum, og Bjarneyjar Friðriksdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem komu á fund nefndarinnar, að skoða þyrfti, áður en frumvarpið yrði að lögum, hvaða áhrif það hefði á konur annars vegar og karla hins vegar. Jafnframt kom það fram að skoða þyrfti samþættingu frumvarpsins á kjör karla og kvenna við aðra kjaraþætti, svo sem skattalöggjöf og jafnréttissjónarmið. Í kjölfar kvennaráðstefnunnar í Peking 1995 samþykktu íslensk stjórnvöld að koma á svokallaðri samþættingu (mainstreaming) sem m.a. felur í sér að við lagasetningu skuli skoðað hvort lagasetningin komi mismunandi við kynin. Þetta var sett inn í jafnréttislögin og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar byggist einnig á því að við lagasetningu skuli byggja á sjónarmiðum samþættingar. Þá kom einnig fram að ef ákvæði varðar meira annað kynið en hitt gætu verið líkur á að um óbeina mismunun vegna kynferðis væri að ræða, sbr. 22. gr. jafnréttislaga. Dæmi um þetta er verkefni sem félagsmálaráðherra og félagsmálaráðuneytinu ber að vinna að og varðar samþættingu jafnréttissjónarmiða við lagasetningu. Og ég verð að segja, herra forseti, að í ljósi þessa er það náttúrlega ákaflega ankannalegt og óeðlilegt að þessi löggjöf skuli ekki vera skoðuð í ljósi samþættingarsjónarmiðanna þar sem þetta hefur nú verið sett inn í jafnréttislöggjöf okkar og sömuleiðis inn í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Minni hlutinn óskaði eftir upplýsingum um hve margir ellilífeyrisþegar af hvoru kyni fengju greiðslur samkvæmt þessu frumvarpi þegar það yrði að lögum. Ekki var unnt að veita þær upplýsingar fyrir afgreiðslu málsins. Minni hlutinn gagnrýnir þá tímaþröng sem málið er í sem kemur m.a. í veg fyrir að fram komi upplýsingar sem þessar og að samþættingarvinna fari fram.

Í samræmi við framangreint telur minni hlutinn eftirfarandi galla vera á frumvarpinu:

Í fyrsta lagi telur minni hlutinn að afnema hefði þurft með öllu skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka með sama hætti og hefði átt að gera varðandi öryrkjana. Í öðru lagi að réttur ellilífeyrisþega hefði þurft að ná aftur í tímann. Í þriðja lagi gagnrýnir minni hlutinn tímapressuna sem málið er í og kemur í veg fyrir að nauðsynlegar upplýsingar komi fram og jafnframt að sú samþættingarvinna, sem þurft hefði að fara í áður en frumvarpið yrði að lögum, gæti farið fram.

Umræðan um lífeyristryggingar almannatrygginga í kjölfar öryrkjadóms Hæstaréttar sýnir að kerfið er orðið allt of flókið hvað varðar reglur um tekjutengingar einstakra bótaflokka og flækir þessi lagasetning það enn. Það er því vart á færi annarra en sérfræðinga að skilja hvernig það virkar. Reglur um bætur almannatrygginga eiga að vera gagnsæjar og einfaldar. Til að ná því markmiði þarf að taka kerfið upp í heild í stað þess að vera með endalausar breytingar án þess að horfa á kerfið og lögin í heild.

Með hliðsjón af því að í frumvarpi þessu er gerð réttarbót fyrir ákveðinn hóp ellilífeyrisþega leggst minni hluti nefndarinnar ekki gegn afgreiðslu málsins en í ljósi þeirra ágalla sem tíundaðir hafa verið mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísar allri ábyrgð á lagasetningunni á hendur ríkisstjórninni.

Herra forseti. Undir nál. rita sú sem hér stendur, Ásta R. Jóhannesdóttir, og hv. þm. Þuríður Backman og Rannveig Guðmundsdóttir, sem sat nefndarfundinn þegar málið var afgreitt í fjarveru Bryndísar Hlöðversdóttur sem á fastasæti í nefndinni og er samþykk þessu minnihlutaáliti.

Herra forseti. Ég ætla að taka nokkur atriði til umræðu sem varða þetta mál og ég tel fulla ástæðu til að komi hér fram. Hér er á ferðinni sambærilegt frv. og við vorum með þegar öryrkjamálið var til umræðu. Tekjutengingin vegna tekna maka er minnkuð, en hún er ekki afnumin. Gamla reglan, tekjutengingarreglan í 17. gr., heldur sér en það kemur viðbótarregla sem er þá með aukinni skerðingarprósentu gagnvart eigin tekjum þess maka sem er með lægri tekjurnar.

[14:00]

Eins og kom fram í nál. minni hlutans þá er þarna um ákveðna kjarabót að ræða þótt við teljum alls ekki verið að fara að dómi Hæstaréttar. Áfram er verið að mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu. Ég vil geta þess hér, herra forseti, og minna á hver staða lífeyrisþega í hjúskap er. Ég vil einnig minna á það sem ég hef oft nefnt í þessum ræðustóli, að tekjutengingarreglurnar vegna tekna maka hafa haft í för með sér að lífeyrisþegar eru síður í hjúskap. Þetta hefur valdið skilnuðum og fólk í þessari stöðu gengur ekki í sambúð eða hjónaband. Ef lífeyrisþeginn býr einn þá hefur hann heimilisuppbót og hann gæti haft sérstaka heimilisuppbót, hann hefur fullan grunnlífeyri og fulla tekjutryggingu hafi hann ekki aðrar tekjur. Við það að ganga í hjúskap missir hann heimilisuppbótina, sérstöku heimilisuppbótina, grunnlífeyririnn hans lækkar um 10%, hann fær aðeins 90% af grunnlífeyri, auk þess sem tekjutryggingin sem hjá einstaklingi, ellilífeyrisþegum, er um 31.000 kr., getur ekki farið upp fyrir 25.000 kr., hún er lækkuð um 8.000 kr. með þessum lögum. Nú er ég að miða við ef hann byggi einn og hins vegar að hann sé í hjónabandi.

Ég vil geta þess að nokkrir lífeyrisþegar hafa komið að máli við mig eftir þessa lagasetningu, lífeyrisþegar sem hafa ekki treyst sér að hefja sambúð eða ganga í hjónaband, sem hafa sagt að þetta breytti svo litlu fyrir sig. Þetta breytti svo litlu í auknum tekjum ef lífeyrisþegar gengju í hjónaband að þeir verða að vera áfram einir því að þeir geta ekki séð sér farborða öðruvísi. Við þurfum ekki annað en að horfa á hvaða tekjur fólk er með. Lífeyrisþeginn eða öryrkinn sem hefur ekkert nema almannatryggingagreiðslurnar er ekki með nema um 73.000 kr. til að framfleyta sér. Það að hann gæti náð upp í 43.000 kr. með samanlögðum almannatryggingabótum plús aðrar tekjur --- maður sér auðvitað hver munurinn er þar á. Ég tel því að það verði að halda þessu til haga við þessa lagasetningu.

Varðandi það að ekki gafst tími til að skoða hversu margir af þeim sem þessi lagasetning varðar eru karlar og hversu margar konur þá vil ég gagnrýna að ekki skuli hafa verið búið að kanna það áður en frv. var lagt fram og ekki fylgi því upplýsingar um það hvernig þetta kemur við karla og konur, sérstaklega í ljósi þess að það voru nánast eingöngu konur sem lentu í þessari lagasetningu hjá öryrkjunum. Mér finnst ólíklegt annað en að meiri hlutinn séu konur í þessu tilviki, þ.e. hjá ellilífeyrisþegunum, vegna þess að fullorðnar konur eru yfirleitt með mun minni rétt í lífeyrissjóðum en karlar. Mjög margar eru með nánast engan lífeyrissjóðsrétt. Oft hafa verið gerðar kannanir á því og sýnt fram á að fullorðnar konur, ellilífeyrisþegar á Íslandi, búa við verulega fátækt og gera má ráð fyrir að þessar konur lendi í þessari lagabreytingu.

Ég ítreka að verið er að bæta kjör þessa fólks lítillega, en þó ekki í þá veru sem ég tel að hæstaréttardómurinn hafi kveðið á um.

Ég vil líka, herra forseti, nefna að það er til lítils að ákveða það hér með lagasetningu og stefnumótun á Alþingi að ætla að taka betur á málefnum í lagasetningu eins og að einsetja sér að koma á samþættingu og skoða lagasetningu, sérstaklega hvaða áhrif hún hefur á karla og konur í hverju tilviki þegar það er síðan ekki gert, þegar það er síðan hunsað að skoða þessa þætti. Ekki er verið að virða lög eins og jafnréttislögin þegar þetta gerist.

Við höfum verið með umræðu um lagaráð og nauðsyn þess að vanda til lagasetningar á Íslandi. Auðvitað erum við ekki að því þegar verið er að koma hér með mál undir slíkri tímapressu sem hér er þar sem ekki gefst tími til að skoða þætti eins og þessa, sem hefði vissulega verið full þörf á, eins og frv. og lögin í kjölfar öryrkjadómsins sýna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni en mun ef ástæða er til fara yfir fleiri þætti málsins. Full ástæða hefði verið til að rifja upp ýmislegt sem sneri að öryrkjadómnum en ég ætla ekki að gera það því ég tel mikilvægt að þessi löggjöf fari hér frá þinginu fyrir nefndaviku þó svo ég sé mjög ósátt persónulega við hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á þessum málum og hvernig hún túlkar dóm Hæstaréttar en fer ekki að honum þó hér sé um að ræða lögjöfnunarfrv. eins og fram hefur komið.

En hér er sem sagt áfram í gangi tekjutenging við laun maka. Fyrningarákvæðin eru lakari en kveðið var á um í lögunum frá 24. janúar sl. Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að þetta sé ekki endirinn á þessu máli. Hér á eftir að verður frekari málatilbúnaður ef ég þykist vita rétt því þessi lagasetning á örugglega eftir að draga dilk á eftir sér enda er málshöfðun í undirbúningi til þess að fá þessum fyrningarákvæðum hnekkt.