Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:07:48 (5826)

2001-03-15 14:07:48# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Af tilefni ræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur finnst mér brýn nauðsyn á að leggja ríka áherslu á að það frv. sem hér er til umræðu, leggur til að lögfesta sérreglu, viðbótarreglu við 17. gr. almannatryggingalaganna, reglu sem er ellilífeyrisþegum ótvírætt til hagsbóta og frv. felur í sér ótvírætt ívilnun fyrir ellilífeyrisþega. Þessari reglu er ætlað að tryggja ellilífeyrisþega ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka ellilífeyrisþegans. Í þessari reglu felst að samanlögð eigintekjuöflun ellilífeyrisþega og tekjutrygging geta aldrei, þrátt fyrir meginregluna um sameiginlegt frítekjumark hjóna, numið lægri fjárhæð en 25.000 kr. á mánuði. Hún felur það í sér að enginn ellilífeyrisþegi fær vegna tekna maka lægri lífeyri en 43.424 kr. Með þessu frv. er ætlunin að hækka og tryggja ellilífeyrisþega í hjúskap rúmar 43.000 kr. á mánuði án tillits til tekna maka. Þetta er meginefni frv.

Séreglan rýrir ekki hag nokkurs ellilífeyrisþega. Enginn ellilífeyrisþegi fær lægri fjárhæð vegna sérreglunnar en þá sem er verið að leggja til. Sérreglan kemur ekki til framkvæmda nema þegar svo háttar að útreikningur á bótum vegna almennu reglunnar í 17. gr. leiði til þess, vegna tekna maka, að greiðslurnar eigi að fara þar undir.

En mér finnst fullt tilefni í framhaldi af ræðu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hnykkja á því hvert er efni frv. og taka fram að það er til hagsbóta og það er til ívilnunar ellilífeyrisþegum sem eru í hjúskap og frv. varðar.