Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:17:34 (5831)

2001-03-15 14:17:34# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að hlutföllin eru önnur, sérstaklega hjá öryrkjunum, þau eru 98% konur og 2% karlar hvað þetta mál varðar. Einnig er rétt og ég vil orða það þannig að verið er að minnka skerðingu vegna tekna maka, en það er ekki verið að afnema hana eins og Hæstiréttur sagði að skyldi gera. Kæran gekk út á hvort heimilt væri að skerða vegna tekna maka, ekki hvort skerða mætti minna eða meira og niðurstaðan var nákvæmlega sú sama, það var ekki heimilt að skerða vegna tekna maka. En hér er verið að minnka hana, það er alveg rétt.

Ástandið í samfélaginu og hjá þeim kynslóðum sem nú eru á ellilífeyri er eins og kom fram hjá hv. þm. að konurnar eru með lægri tekjur. Þær hafa verið að sinna heimilisstörfum og öðrum verkefnum sem varða fjölskylduna og eru þess vegna með lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóðum og eru þess vegna fátækari aðilinn í þessum samböndum. Einmitt þess vegna ber okkur að skoða þetta. Þess vegna var verið að taka það inn í jafnréttislögin að við ættum að skoða hvernig löggjöf varðar hina ýmsu hópa. Ég horfi á þetta frá mannréttindum kvenna sem í þessu lenda og eiga lítinn rétt. Ég get vitnað í konu sem ég var á fundi með sem sagði mér frá því. Hún er búin að vinna sér inn ákveðin lífeyrisréttindi og maðurinn hennar er líka öryrki með hærri lífeyrisréttindi, en þegar kemur að lífeyri hennar lendir hún í 67% skerðingu gagnvart sínum lífeyri meðan sameiginlegu tekjurnar voru 45%. Þetta finnst fólki óréttlæti. Þetta bitnar á konum. Auðvitað verðum verðum við að skoða þessa löggjöf í því samhengi, herra forseti.