Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:59:53 (5838)

2001-03-15 14:59:53# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við höfum í áratugi búið við opinbert húsaleigukerfi sem hefur valdið því að nánast engir einstaklingar eða fyrirtæki fjárfesta í húsnæði til að leigja út vegna þess að samkeppnin gekk ekki upp. Ekki er hægt að keppa við niðurgreidda leigu sem er niðurgreidd með skattpeningum. Það kerfi sem við höfum búið við í áratugi hefur verið með mjög lágri leigu til ákveðinna tekjuhópa, þess fólks sem gætti sín á því að hafa ekki of miklar tekjur. Það hefur sem sagt valdið því að þeir sem leigja út frá sér eru orðnir mjög fáir.

[15:00]

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það sé eingöngu lágtekjufólk sem leigir húsnæði. Oft er það þannig að fólk fer kannski tímabundið til starfa utan af landi til Reykjavíkur eða öfugt. Einnig kemur fólk frá útlöndum, útlendingar sem ætla að starfa hérna í nokkra mánuði eða ár og vill ekki setja sig inn í það að fara að kaupa sér íbúð og það vill gjarnan leigja, en það fær ekki húsnæði vegna þess að leigumarkaðurinn er í rúst. Það er rétt hjá hv. þm. og flytjendum þessarar till. til þál. að leigumarkaðurinn er í rúst.

Þess vegna finnst mér skorta á að þeir sem flytja þessa tillögu horfi á eitthvað annað en opinbert leigumarkaðskerfi. Þeir virðast ekki á nokkurn máta hafa sett sig inn í það hvernig er að eiga húsnæði og leigja það út. Það er dálítið merkileg staða. Ég var um árabil formaður Húseigendafélagsins og ég fékk að vita frá eigendum húsnæðis hvernig það var að eiga húsnæði og leigja út. Margir segja mér að eflaust sé hægt að leigja húsnæði á 80 þús. kr. en sú leiga verður aldrei greidd. Það er engin greiðslutrygging og þeir sem eru glannalegastir í því að taka húsnæði á leigu með hárri leigu ætla sér aldrei að borga hana eða geta það hreinlega ekki. Síðan er umgengnin hjá einstökum leigjendum þannig að íbúðirnar eru nánast tilbúnar undir tréverk, það er búið að brjóta allar hurðir og kveikja eld á parketinu í stofunni o.s.frv. Þetta er vandamál sem skemmir leigumarkaðinn, mjög fáir einstaklingar skemma fyrir öllum hinum sem eru að leigja. Fólk ætti að kynna sér hvernig er að leigja út íbúðir.

Mér segja þeir sem eiga húsnæði og leigja út, þeir örfáu sem eftir eru, að miklu skynsamlegra sé að leigja á lágu verði en hafa tryggingu fyrir því að leiga verði greidd. Það sé miklu meira virði. Þess vegna er leigan í reynd töluvert lægri en menn hafa verið að tala um. Menn hafa verið að tala um 70--80 þús. kr. á mánuði. Það er leiga sem ég hygg að verði aldrei greidd. Sú leiga sem er í gangi er trúlega 40--50 þús. kr. eins og kannanir hafa sýnt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur eytt dálitlu púðri á skattlagningu húsaleigubóta og borið það saman við vaxtabætur. En þetta eru þau tvö form sem ríkið veitir til beinna styrkja til húsnæðiskaupa fyrir utan óbeina styrki sem felast í ríkisábyrgð á húsbréfum.

Auðvitað skiptir litlu máli hvort bætur eru skattlagðar eða ekki, það má bara að hækka þær sem nemur skattinum, en það kemur öðruvísi út. Fyrir þá sem greiða ekki neina skatta er betra að hafa bæturnar ekki skattlagðar því þeir borga enga skatta hvort sem er. En þeir sem borga skatta yfirleitt, fara upp fyrir skattleysismörk, t.d. þeir sem eru ekki námsmenn fara flestir yfir skattleysismörk, fyrir þá skiptir náttúrlega máli hvort bæturnar eru skattlagðar eða ekki, en sjálfsögðu mætti bara hækka þær sem nemur skattinum. Það merkilega er að hvergi í lögunum um húsaleigubætur er eitt einasta orð um hvað þær eiga að vera háar. Ekkert einasta orð. Það er reglugerðarákvæði ráðherra og hann getur bara haft þetta eins og hann vill með samkomulagi við sveitarfélögin.

Það breytir því eiginlega engu að tala um skattlagningu. Ég hef reynt að bera saman vaxtabætur og húsaleigubætur. Það er eiginlega óvinnandi vegur vegna þess hvað reglurnar eru óskaplega flóknar í vaxtabótunum. Og eins í húsaleigubótunum. En hvorar tveggja reglurnar eru arfavitlausar, herra forseti. Verið er að borga vaxtabætur til hátekjufólks, fólk með allt upp í 600 þús. kr. heimilistekjur getur fengið vaxtabætur. Þær hvetja til skulda vegna þess að það skiptir ekki máli á vissu tekju- og eignabili hvað fjölskyldan skuldar. Ríkið borgar alla vextina. Það er því um að gera að skulda nógu mikið til að fá vaxtabæturnar. Það skiptir eiginlega engu máli hvort menn skulda einni eða tveim millj. meira eða minna, eða sáralitlu máli.

Húsaleigubæturnar eru arfavitlausar vegna þess, herra forseti, að þær taka mið af tekjum fjölskyldunnar en það eru sömu mörk fyrir einstakling og sex manna fjölskyldu, herra forseti. Sex manna fjölskylda má hafa sömu tekjur og einstaklingur eða námsmaður hefur að meðaltali yfir árið. Þess vegna eru það aðallega námsmenn, einstaklingar, sem fá húsaleigubætur, sem þeir fá til viðbótar við námslánin. Því eru margir námsmenn komnir með dágóð lífskjör, margir hverjir miklu betri en þeir hafa seinna meir þegar þeir fara að vinna.

Til dæmis kemur fram í upplýsingablaði frá félmrn. að einstaklingur sem er með 2,5 millj. á ári, þ.e. rúmar 200 þús. kr. á mánuði, fær 6 þús. kr. í húsaleigubætur. Einstaklingur sem sér bara um sjálfan sig, ekkert annað, engin börn og ekki neitt, fær 6 þús. kr. á mánuði í húsaleigubætur. Hann má hafa sömu tekjur áður en húsaleigubæturnar byrja að skerðast eins og sex manna fjölskylda. En þetta eru reglurnar sem hv. frummælandi stóð að að búa til á sínum tíma og þær eru náttúrlega alveg arfavitlausar.

Þessi kerfi eru bæði mjög slæm og þau koma einmitt ekki þeim til góða sem mest þyrftu á því að halda, barnmargar fjölskyldur sem þyrftu mest á því að halda. Það er verið að dæla út peningum til fólks sem ekki þarf á þeim að halda.

Herra forseti. Þetta er ekki það velferðarkerfi sem ég vil sjá. Þess vegna hef ég hreyft þeirri hugmynd á Alþingi að þessu verði breytt þannig að teknar yrðu upp húsnæðisbætur sem væru háðar tekjum og eignum fjöskyldunnar allrar en það rekst aftur á móti á dóm Hæstaréttar sem segir að ekki megi taka tillit til aðstöðu fólks eða fjölskylduaðstæðna nema að litlu leyti.