Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:16:00 (5840)

2001-03-15 15:16:00# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir bar mér á brýn að í samræmi við grundvallarskoðun mína vildi ég ekki vera með félagslegar úrbætur. Hv. þm. veit betur. Ég hef alla tíð staðið vörð um velferðarkerfið og ég tel velferðarkerfið vera mjög mikilvægt, herra forseti. Mér finnst þetta því ómakleg ásökun.

Hins vegar er ég á móti því að dæla bótum til hátekjufólks. Ég hef nefnt dæmi úr þessum ræðustól um einstæða móður með tvö börn í háskólanum sem er með yfir 200 þús. kr. til ráðstöfunar allt árið um kring og borgar enga skatta. Með yfir 200 þús. kr. á mánuði í ráðstöfun, allt árið um kring, og borgar enga skatta. Ég nefndi áðan í ræðu minni að hjón með 600 þús. kr. í heimilistekjur eru að fá vaxtabætur, herra forseti. Viljið þið hafa það þannig? Ég hef líka nefnt að einstaklingur með 200 þús. kr. á mánuði er að fá 6 þús. kr. í húsaleigubætur. Er það þetta sem við viljum? Veit ekki hv. þm. að fjöldi fólks í landinu er aðeins með 100 þús. kr. í mánaðartekjur í heildina og er að greiða þessi ósköp?