Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:29:43 (5849)

2001-03-15 15:29:43# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar ég var að alast upp í Reykjavík á árunum í kringum 1960 vildi svo til að nokkrir mínir nánustu kunningjar voru úr fjölskyldum sem þurftu að búa við þau skilyrði sem þá voru boðin á leigumarkaði í Reykjavík. Skilyrðin voru sem sagt þau að ef fólk var svo heppið að komast á annað borð yfir húsnæði þurfti það iðulega að hrekjast árlega úr einni kjallaraholunni á næsta hanabjálka. Þær innréttingar, sem boðið var upp á eða sú einangrun sem var í þessum vistarverum, eða sú lykt sem þarna var inni þrátt fyrir að reynt væri að viðhafa ýtrasta hreinlæti, var nú ekki þannig að það séu gleðilegar endurminningar þegar maður hugsar um það.

[15:30]

Ég tel að það hafi verið einn glæstasti atburður í sögu íslenskrar alþýðu þegar framkvæmdanefnd fór að byggja húsnæði í Breiðholti og úthluta á sínum skilyrðum einmitt til þessa hóps, það var fyrsti áfanginn í því átaki. Það vildi svo til að fjórar fjölskyldur, sem ég þekkti í gegnum það að börn af þessum heimilum voru vinir mínir, fengu þarna húsnæði. Ég gleymi því aldrei hvers konar gleðiatburður það var þegar fólk flutti þarna inn með dívanana sína. Það átti ekki mikil húsgögn, en þarna voru þó innréttingar, það voru skápar í svefnherbergjum, það voru fínar eldhúsinnréttingar og dúkar á öllum gólfum. Þarna var allt nýtt og þetta var svo glæsilegt að fólki fannst að það væri komið í höll. Ég veit a.m.k. það sem ég fylgdist með þessu fólki, sem margt er nú gengið núna, að þá fór það vel með íbúðir sínar. Það er alveg öruggt mál. En það má segja það að þær áttu að heita eignaríbúðir en það var sama --- þetta var á þeim kjörum að verkafólk gat notfært sér það.

Ég hélt satt að segja að maður þyrfti ekki að upplifa þann dag að maður sæi núna eftir árið 2000 blasa við svipaða knýjandi nauðsyn á að gera átak í að koma upp húsnæði einmitt fyrir þennan hóp eins og núna blasir við. Ekki er lengur hægt að skella skollaeyrunum við því að það er neyðarástand í húsnæðismálum í Reykjavík. Ég þekki núna ungt fólk, vini barna minna, sem hafa verið að leita sér að húsnæði í Reykjavík vegna þess að þeir eru í námi eða að leita sér að vinnu. Ég er mjög vel meðvituð um hvað það er sem býðst, ef það býðst yfirleitt nokkur hlutur. Það sem býðst eru t.d. tveggja herbergja íbúðir á 70 þús. kr. á mánuði og því fer fjarri að þær séu allar í góðu ástandi þannig að manni finnist þær yfirleitt vera leigufærar en það er rifist um þetta.

Það er ekki eins og fólk komist upp með að flytja inn og borga síðan ekki húsaleiguna eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bar að einhverjir vinir hans, sem hafa greinilega ekki nógu vel vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum, hafa þurft að þola. Nei, því í hverju einasta af þessum tilfellum þá er þess krafist að fólk greiði þrjá mánuði fyrir fram, tvo mánuði fyrir fram í leigu og einn mánuð sem tryggingu. Þar að auki þarf það að leggja fram tryggingarvíxil fyrir einhverri hugsanlegri ógreiddri leigu sem aðstandendur þurfa að skrifa upp á. Þetta eru alveg ófrávíkjanleg skilyrði til að nokkurt húsnæði fáist yfirleitt.

Það fólk sem stendur illa og hefur t.d. enga til að skrifa upp á slík plögg fyrir sig getur bara étið það sem úti frýs ef maður má nota slíkt orðbragð. Það fær ekki inni. Það er bara svo einfalt.

Ég verð því að segja að ég fagna því mjög að þessi þáltill. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur skuli liggja hér fyrir. Hún er reyndar lögð fram af öllum þingflokki Samfylkingarinnar sem hvetur til þess, líkt og árið 1963 og hafði reyndar verið gert áður, að ráðist verði í átak til að koma húsnæði yfir þennan hóp. Í þessu tilfelli er verið að tala um leiguíbúðir. Það kom fram þegar hæstv. félmrh. svaraði fyrirspurn í gær um framboð á leiguhúsnæði að hann er ekki á því að nýju húsnæðislögin eigi neinn hlut að máli eða hafi gert nokkuð það sem getur orðið ungu fólki sem er að baslast á leigumarkaði til trafala.

En ég vil endurtaka það sem ég sagði í gær. Ég tel þessi lög að mörgu leyti ágæt til síns brúks fyrir þá sem eru nógu vel staddir til að geta passað inn í þetta kerfi. Hins vegar hefur það gerst sem við sáum fyrir, sem tókum þátt í umræðunni á sínum tíma, að það fólk sem við óttuðumst mest um hefur orðið út undan. Það er það sem er fyrst og fremst á götunni. Að það skuli vera hundruð fjölskyldna í Reykjavík sem búa ýmist á gistiheimilum eða inni á ættingjum sem engan veginn hafa í rauninni pláss fyrir það, vegna þess að það getur ekki komið sér neins staðar fyrir, er náttúrlega neyðarástand og það þetta fáum árum eftir að kerfinu var skipt út. Ég held að það hljóti að gerast að ríkisstjórnin verði að vakna af þeim þyrnirósarsvefni sem hún hefur sofið í þessum málum og taka sér tak og gera átak til að auka framboði á leiguhúsnæði fyrir láglaunafólk líkt og stungið er upp á í þessari till. til þál.