Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:22:08 (5859)

2001-03-15 16:22:08# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er ágætt samkomulag hjá mér við sjálfstæðismenn í ríkisstjórninni, jafnvel þótt þeir og ég út af fyrir sig gagnrýni ekki viðhorf þeirra að orð skuli standa jafnvel þótt ekkert hafi verið skrifað. Mér þykir út af fyrir sig ekkert gaman að sí og æ skuli vera vitnað í þennan samning við fyrirrennara minn. (JóhS: Hvar er þessi samningur? Ég vil sjá hann.) Það var ekkert skrifað, búið er að viðurkenna það hér úr ræðustól að hann hafi verið munnlegur.

Hraða þarf þessu verki, ég hef ekki sett nein sérstök tímamörk en hraða því eins og unnt er. Lagaheimildir eru allar fyrir hendi. Til að fullnægja þessum hugmyndum mínum sem við höfum verið að ræða þarf ekki nein lög um þetta mál. Ég mun ekki beita mér fyrir því að Íbúðalánasjóður fari að lána 95% til leiguíbúða.

Það er rétt að halda til haga, og ég ætla að sýna fram á hve mikið hefur verið ofsagt um þá afturför sem ræðumenn hér hafa verið að segja um hina félagslegu aðstoð í húsnæðiskerfinu í nýju lögunum, að 1990 var fjöldi félagslegra íbúða 824 sem framkvæmdaaðilar á öllu landinu höfðu til ráðstöfunar til umsækjenda, þ.e. leiguíbúðir, innlausnaríbúðir eða endursöluíbúðir, nýjar íbúðir inn í kerfið og íbúðir með viðbótarláni. Þær voru 1.235 árið 1993, 1.287 árið 1995, 1.684 árið 1999 og 1.782 árið 2000. Ekki þarf frekar vitnanna við, þeim hefur verið að stórfjölga og það hefur verið gert mikið átak.

Svo við förum yfir hvernig fólki hefur gengið að standa í skilum, þá var hlutfall vanskila af heildarútlánum Íbúðalánasjóðs árið 1995 1%. Í fyrra var það 0,3% og það er í sögulegu lágmarki.

Varðandi umsóknir vegna greiðsluerfiðleikalána eða umsóknir vegna greiðsluerfiðleika og/eða frystingar lána, þá voru þær 1.545 árið 1995 en 157 árið 1999 og 233 árið 2000.

Ef við skoðum fjölda nauðungaruppboða, þá voru þau 628 árið 1995 en 276 árið 1999 og 317 árið 2000.

Ég mun vonandi fyrir vorið leggja fram frv. um lítils háttar breytingar á húsnæðislöggjöfinni. Það eru ákveðnir annmarkar sem við höfum rekist á og sem ég tel að væri heppilegt að laga. Þeir eru ívilnandi fyrir lántakendur. Ég vil rýmka möguleika á greiðsluerfiðleikalánum. Þeir eru nokkuð þröngir, það eru tvenns konar möguleikar, annaðhvort að frysta í þrjú ár eða að breyta vanskilum í 15 ára lán. Þessa möguleika vil ég rýmka. Ég vil skapa möguleika á að bjarga fólki þegar hús eyðileggjast eins og nokkur dæmi eru um, t.d. þegar veggjatítlur hafa eyðilagt húsin, að heimild sé til að afskrifa lánin.

Ég mun einnig á næstu dögum koma með breytingu á húsaleigubótalögunum. Húsaleigubætur hækkuðu um síðustu áramót og það er kannski rétt að halda því inni í þessari umræðu hvað húsaleigubætur eru, þ.e. ef tekjur eru 2 millj. og um einstakling eða hjón er að ræða, eru húsaleigubæturnar 11 þús. á mánuði. Ef um eitt barn er að ræða þá eru þær 18 þús. á mánuði miðað við 40 þús. kr. leigufjárhæð á mánuði. Ef börnin eru tvö eða þrjú eru þær 20 þús., þ.e. helmingurinn af leigufjárhæðinni. Þannig að húsaleigubæturnar eru engin smábúbót fyrir þá sem þær þiggja.

En ég vil laga þessa löggjöf meira, þ.e. ég vil rýmka þinglýsingarkvöðina. Ég vil rýmka skyldmennaleiguna, þ.e. mjög ströng skilyrði eru um að ekki megi vera ættartengsl eða náin ættartengsl. Ég vil liðka til fyrir námsmönnum á stúdentagörðum. Eitt af því sem menn hafa rekið sig á og m.a. er kannski orsök að þeim biðlista sem er eftir leigu\-íbúðum á stúdentagörðunum er að þeir sem leigja herbergi fá ekki húsaleigubætur og þurfa að greiða hærri leigu, þ.e. hærri raunleigu en þeir sem fá íbúð. Eins þarf að laga varðandi sambýli og dvalarheimili. Síðast en ekki síst er mjög nauðsynlegt að auglýsa það að einungis er 10% skattur á húsaleigutekjur. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því, allir þeir sem eru að leigja út og stela undan leigunni og vilja ekki gera samning þannig að leigjandinn geti fengið húsaleigubætur, að það er ekki nema 10% skattur á húsaleigutekjur, það er sami skattur og á fjármagnstekjur. Það tel ég að þurfi að kynna betur en gert hefur verið. Ég mun ekki beita mér fyrir því að skatturinn verði afnuminn. Mér finnst að slíkar tekjur eigi að bera einhvern skatt og 10% skattur er ekki óbærilegur.

Ef við tölum ofurlítið um vaxtapólitíkina, þá eru húsbréfavextirnir núna 5,1%. Þegar afföllin voru sem mest, ef þeim var dreift út á lánstímann, báru húsbréfin í kringum 6% vexti. En afföllin hafa farið lækkandi, eru komin niður í 7--8% núna. Viðbótarlánin bera 5,7% vexti og leiguíbúðalánin 3,9% vexti. Húsbréfavextirnir hafa verið kyrrir frá ársbyrjun 1999 a.m.k. Stýrivextir Seðlabankans sem voru 7,5% í ársbyrjun 1999 eru komnir í 11,4%. Óverðtryggð skuldabréf voru þá í 12% og eru komin í 18% núna og vísitölubundin lán voru með 10% vöxtum og eru núna komin í 12%.