Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:31:01 (5860)

2001-03-15 16:31:01# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er ekki að bera saman sambærileg lán þegar hann talar um félagsleg lán á sl. áratug. Félagsleg lán hættu að mestu að vera til eftir 1995. Þá voru lán til leiguíbúða með 1% vöxtum og um það hafði þá verið sátt í 25 ár, að hafa þau 1%. Þó höfðu menn ansi oft lent í niðursveiflu. En eftir 1995, eftir að hæstv. ráðherra breytti húsnæðiskerfinu, þá hækkuðu vextirnir, eru nú komnir í 3,9% og hann stefnir með þá í markaðsvexti. Síðan eru þessi viðbótarlán, sem ráðherra nefnir félagsleg lán, komin með 5,7% vexti. Það er því vart hægt að tala um félagsleg lán í því sambandi. Ráðherrann ber þar ekki saman sambærileg kjör.

Þegar hæstv. ráðherra talar um vanskil í lágmarki --- Guð láti gott á vita og ég vona að það sé rétt. En ég spyr ráðherrann: Er hann þar að bera saman sambærileg atriði. Það getur verið svo að vanskilafjárhæðir hafi hækkað þótt hlutfall vanskila af heildarlánum, sem fjölgað hefur gífurlega, hafi ekki hækkað mikið. Ég býst við að ráðherrann skoði málin út frá þeim sjónarhóli og það er blekkjandi. Þetta ekki í samræmi við það sem núna sést í bönkunum og hjá Íbúðalánasjóði, að greiðsluerfiðleikalán hafa tvöfaldast frá sl. ári, enda er ráðherrann að boða að hann ætli að rýmka heimildir til greiðsluerfiðleikalána. Það kom síðan fram í fréttum að búist er við því, því miður, að 400 fjölskyldur tapi íbúðum sínum á þessu ári. Einnig hefur komið fram að orðið hafi 60% aukning á árangurslausu fjárnámi. Ég er ekki að búa til þessar tölur. Þetta eru vísbendingar um erfiðleika hjá fjölskyldunum og það þarf að taka á þeim, einmitt með því að lækka vextina. Því miður hefur ráðherrann gert allt annað en að lækka þá á undanförnum árum. Hann hefur meira að segja gengið svo langt að félagslegu lánin eru nærri því komin í markaðsvexti.