Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:55:48 (5867)

2001-03-15 16:55:48# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgrh. fyrir þá till. til þál. sem hann leggur fram um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda. Ég tel að í rauninni sé verið að leggja fram mjög vel unnið plagg og góðar ábendingar. Þó ævinlega sé það svo að menn geti bent á einhver atriði sem þeim finnst að leggja eigi meiri áherslu á þá er sú skoðun auðvitað misjöfn milli manna um það hvar slíkar áherslur eigi að leggja.

Í sumum tilvikum finnst manni kannski að það hefði mátt marka meiri tekjur en ég held þó að hér sé lagt upp með mjög góða vinnuaðferð til næstu ára um það hvernig megi stuðla að góðri þróun í öryggismálum sjófarenda. Þess vegna endurtek ég þakkir mínar til hæstv. samgrh. varðandi þetta mál í heild sinni og vona að það verði okkur öllum til góðs.

Mig langar hins vegar kannski að varpa inn nokkrum spurningum. Í fyrsta lagi langar mig að forvitnast um það hvenær STCW-F verður formlega staðfest af Íslands hálfu ef ráðherrann gæti svarað því nú eða síðar.

Síðan langar mig auðvitað að víkja almennt að því sem kemur fram í hinum ýmsu liðum sem fjallað er um.

Ég vil samt áður en ég fer að víkja að einstökum liðum láta þess getið að sjónarmið mitt er það almennt í öryggismálum að aldrei verði til betra öryggistæki en skipið sjálft. Það sé í raun og veru mesta og besta öryggismál hvers sjómanns og ekki síst skipstjórnarmanns að sjá til þess að skipið sjálft sé þannig búið og því þannig hagað til að á það megi treysta en hann sé ekki með allan hugann við það að treysta á öryggisbúnaðinn. Öryggisbúnaðurinn á fyrst og fremst að vera búnaður til þess að bregðast við á neyðarstundum og menn eiga að vera með sjónarhornið að langmestu leyti á búnað og viðhald skipsins sjálfs enda verða því miður langflest slysin um borð í skipunum. Það er þar sem langlíklegast er að við getum komið með virkar úrbætur með því að þar sé skipulega og vel staðið að verki.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem mig langar til að forvitnast um. Mig langar m.a. til að vita hvernig verður þjálfun í Slysavarnaskóla sjómanna hagað að því er varðar þyrlumálin svokölluðu? En það er í raun og veru samstarf Landhelgisgæslunnar annars vegar og Slysavarnaskólans hins vegar um að þjálfa sjómenn sem fara í gegnum námskeið í Slysavarnaskóla sjómanna í að vera í sjónum, kunna að vera í búningum, kunna að bregðast við þegar þyrla kemur og standa bara yfirleitt rétt að málum. Ég hef litið svo á að þessi þjálfun væri afar nauðsynleg fyrir sjómenn. Ég hef líka litið svo á að hún væri nauðsynleg fyrir Landhelgisgæsluna. Ég hef þess vegna átt svolítið erfitt með að skilja á undanförnum árum þær miklu kröfur sem Landhelgisgæslan hefur sett fram um að fá sérstakar greiðslur fyrir þá tíma sem þeir eru í þessari starfsþjálfun með sjómönnunum.

[17:00]

Það er einfaldlega þannig að þyrluflugmenn Landhelgisgæslunnar þurfa að stunda flug og þurfa að stunda æfingar. Og það hlýtur að vera svo hjá Landhelgisgæslunni að þeir tímar sem notaðir eru í flugtíma við þjálfun á nemum í Slysavarnaskóla sjómanna hljóta líka að gagnast starfsmönnum Landhelgisgæslunnar til þjálfunar og viðhalds þekkingar sinnar.

Þess vegna held ég að þetta sé mál sem menn þurfi að leysa og það er óviðunandi að menn séu alltaf að deila um þessa fjármuni sem Slysavarnaskólinn á að greiða til Landhelgisgæslunnar fyrir þá þjónustu, sem ég tel að Landhelgisgæslan þurfi virkilega líka á að halda. Og þetta ætti í raun og veru að vera sameiginlegt þjálfunarprógramm Landhelgisgæslunnar og Slysavarnaskólans sem nýtist báðum.

Þess vegna spyr ég: Er búið að tryggja það til framtíðar litið hvernig þessum hlutum verður fyrir komið? Hvernig er um þetta samið?

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef verið nokkuð ósáttur við það hversu stífar kröfur Landhelgisgæslan hefur gert varðandi greiðslur fyrir slík þjálfunarnámskeið. Því að eins og ég sagði áðan þá tel ég að flugmenn Landhelgisgæslunnar og starfsmenn hennar um borð í þyrlunni hafi líka ákveðna þjálfun af því að taka þátt í þessum námskeiðum.

Þetta var um þyrluna, en úr því byrjað er að víkja að Slysavarnaskóla sjómanna, þá vil ég láta þá skoðun í ljós að ég tel að Slysavarnaskóli sjómanna hafi sannað vel getu sína og uppbyggingu í forvarnastarfi fyrir sjómenn á undanförnum árum. Og vonandi er það svo að fækkun dauðaslysa og slysa á skipum hefur m.a. orðið vegna þess að menn hafa fengið betri þjálfun, bæði til að forðast slys og eins ef þeir lenda í slysum, hvernig þeir eigi að bregðast við. Það tel ég að hafi reyndar sannast í nokkrum sjóslysum hér við land að einmitt sú þjálfun sem menn hafa fengið, og það hefur komið greinilega fram í viðtölum við sjómenn, hefur skipt sköpum á neyðarstundum.

Ég sé að hallar snöggt á tíma minn og er ég sennilega búinn með 1/4 af ræðunni. En ég fæ vonandi tækifæri til þess að ræða þetta síðar.

Ég vil þó nefna eitt atriði áður en ég fer úr ræðustól. Það er sérstök reglugerð sem mér finnst vanta að setja þurfi um 30 brúttórúmlesta réttindanámskeið. Það er verið að kenna þessi námskeið úti um land og ég hef spurnir af því að mjög misjafn tími fari í að kenna þessi námskeið. Ég tel að nauðsynlega þurfi að fylgja eftir hvernig að þessu er staðið og að skilyrði séu uppfyllt og reglugerð í því sambandi.

Síðan þakka ég fyrir þetta mál enn og aftur.