Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:06:52 (5870)

2001-03-15 17:06:52# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallavarðssyni fyrir þær upplýsingar sem hann lagði fram í málið og ég tel ekki að hann hafi beinlínis verið í andsvari við það sem ég sagði, en þetta voru gagnlegar upplýsingar. Þó vil ég vekja athygli á að áhafnalagafrv. svokallaða liggur í þinginu og í því er vitnað í STCW fyrir fiskimenn. Sú reglugerð hefur mér vitanlega ekki enn þá verið samþykkt, þ.e. fiskimannahlutinn, eða verið staðfest af íslenskum stjórnvöldum. Ég benti einmitt á þetta í ræðustól um daginn að það væri erfitt að koma með þetta áhafnalagafrv. inn í umræðuna í hv. þingi fyrr en það lægi þá fyrir að menn væru búnir að staðfesta fiskimannahlutann í STCW. Ég veit ekki hvort það er búið, en ég held ég hafi alla vega upplýsingar um að það standi þó til og vonandi verður það gert áður en við förum að ræða frv. sem beinlínis vitnar í þá reglugerð.