Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:10:08 (5872)

2001-03-15 17:10:08# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég tel að það sé ívið það stysta til að duga til þess. Þetta var hins vegar ákvörðun um að meiri þjálfun skyldi fara fram á landi. Og þetta tengdist m.a. þjálfun skipstjórnarmanna með siglingu skips í svokölluðum samlingi sem er staðsettur í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Síðan var gert ráð fyrir að meiri verklega þjálfun þyrfti og það er gert ráð fyrir því m.a. í þessum reglum fyrir fiskimenn, STCW, að undirmenn skuli hafa gengið sérstaka vakt undir handleiðslu stýrimanns. Þess vegna er það að verið er að færa áhersluna kannski til. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að þessir sex mánuðir er mjög knappur tími í þessa veru. En menn töldu að rétt væri að taka þetta svona upp, þannig að menn gætu farið inn í námið í Stýrimannaskólanum beint áfram og þess vegna væri verið að auðvelda mönnum að fara inn í stýrimannsnámið. Hins vegar væru uppi hugmyndir um það núna í Stýrimannaskólanum, mér er kunnugt um það vegna þess að ég sit í skólanefnd Stýrimannaskólans, að breyta þessu aftur og vega meira inn starfsreynsluna. Ég held að það verði niðurstaðan þegar menn eru búnir að horfa á þetta núna í tvö, þrjú ár, að það verði gert, þ.e. að starfsreynslan verði aftur nokkuð meira metin.