Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:20:26 (5875)

2001-03-15 17:20:26# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Líkt og sá hv. þm. sem flutti hér ræðu áðan á ég einnig sæti í samgn. og fæ því tækifæri til þess að fjalla þar um svokallaða langtímaáætlun sem er sennilega stysta langtímaáætlun sem ég hef augum litið en henni lýkur árið 2003 ef marka má þetta plagg. Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða hvað en það er von okkar ýmissa hér að það verði síðasta ár hæstv. samgrh. í embætti svo við skulum vona að það gangi á eftir og hæstv. ráðherra miði þá við það kjörtímabil sem lýkur þá árið 2003.

Það breytir ekki hinu að því ber að fagna að menn komi fram með hugmyndir af þeim toga sem hér eru lagðar fram og menn setji sér háleit markmið eins og hér er gert, þ.e. að reyna að fækka slysum til sjós um a.m.k. þriðjung fram til ársins 2004 og að sama skapi dragi úr tjóni vegna sjóslysa. Því ber að fagna að menn hafi þann metnað til að bera að reyna að ná þessum árangri. Þess vegna lýsi ég því yfir líkt og aðrir sem hér hafa talað að ég fagna því að þessi till. til þál. er lögð fram.

Það er hins vegar þannig og það þekkjum við mætavel, hv. þm. á hinu háa Alþingi, að oft er lagt af stað í hin ýmsu mál með háleit markmið og miklar væntingar. Skemmst er að minnast merkrar byggðaáætlunar nokkurrar þar sem vinna átti lönd og höf og allt sem fyrir yrði í þeim efnum. En það er líka þannig að til að ná þessum markmiðum og til að standa undir þeim væntingum sem menn leggja upp með þá þarf oftar en ekki að leggja í það fjármuni. Það þarf að leggja í það fé. Þegar maður fer yfir þau háleitu markmið sem hér er lagt upp með, sem er skipt í fjórtán þætti, fer ekki hjá því að sú hugsun hvarfli að manni að þetta sé að einhverju leyti eða a.m.k. í og með dálítil sýndarmennska því að það er ekki mikið fjármagn sem menn hyggjast leggja í þennan málaflokk. Til þess að taka hér dæmi af handahófi og kannski byrja á lið nr. 1 um helstu verkefni:

Menntun og þjálfun sjómanna verði efld með ýmsum hætti. --- Þar eru tilgreindir þættir eins og samræming sjómannamenntunar og aðlögun að alþjóðasamþykktum.

Endurmenntun skipstjórnarmanna.

Fræðsla og þjálfun í stöðugleika.

Verk- og öryggisstjórnunarfræðsla fyrir yfirmenn á skipum.

Öryggisfræðsla sjómanna á fimm ára fresti. --- Á fimm ára fresti, virðulegi forseti, en þetta er langtímaáætlun til þriggja ára.

Námskeið í notkun og meðhöndlun búnaðar til hífinga.

Námskeið fyrir leiðsögu- og hafnsögumenn.

Ýmislegt fjarnám verði eflt og notað í eins miklum mæli og hægt er.

Þegar bara þetta er lesið er alveg ljóst að til þess að geta hrint þessu í framkvæmd þarf að leggja verulegt fjármagn í þetta en á árinu 2001 er ætlað að leggja í þetta 1.300 þús. kr. Með fullri virðingu fyrir þeim væntingum og metnaði sem menn leggja upp með held ég að flestum ætti að vera ljóst að það næst ekki mikið með þessu fjármagni, a.m.k. ef marka má þau markmið sem hér er lagt upp með. Enda virðist mér það líka vera svo þegar maður skoðar þessa langtímaáætlun til þriggja ára og í samanburði við það má kannski rifja upp að áætlanir austur í Sovét voru jafnan til fimm ára þó að kannski megi einnig halda því fram með rökum að þær hafi ekki allar gengið eftir.

En það breytir ekki hinu að hér hefur verið mjög vandað til verka í upphafi. Hér hafa verið fengnir valinkunnir menn til að gera þessar tillögur enda má glöggt greina þegar þessar tillögur eru skoðaðar og þessir fjórtán liðir eru skoðaðir að menn setja háleit markmið og menn gera væntingar til þessa. Hins vegar verð ég að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst eins og hæstv. samgrh. hafi annaðhvort ekki haft getu eða vilja til þess að leggja í það fé til að ná þessum markmiðum. Ég er því ekki viss um að þegar til kemur að það fjármagn sem hér er áætlað að setja í þetta dugi langt þegar á reynir. Það breytir því ekki að mjór er mikils vísir og ég vænti þess að menn komist eitthvað áleiðis með þetta.

Kannski er ástæða til þess að nefna það líka að slys á sjómönnum hafa verið gríðarlega mörg og bara tilkynningar um slys á sjómönnum fyrir árið 1999 eru 381. Án þess að ég hafi nákvæmar tölur yfir það þætti mér ekki ólíklegt í ljósi þess kerfis sem við rekum í sjávarútvegi og fiskveiðum að sjómönnum hafi jafnframt eitthvað fækkað líka svo þessar tölur segja ekki allt um það hvort þessi mál hafi horft til framfara undanfarin ár eða hvort þær eru í hlutfalli við fjölda sjómanna.

Ég vil enn fremur taka undir flest sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan enda kannski sá maður hér sem hefur mesta reynslu af þessum málum og virkilega ástæða til að hlýða á það sem hann hefur til þessara mála að leggja.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að hér sé um nokkuð metnaðarfullt plagg að ræða þá er það svo þegar menn gera slíkar áætlanir að þá verður að leggja í það fjármagn. Við höfum dæmi um margar áætlanir sem gengu ekki eftir sökum þess að fjármagn hafi verið af skornum skammti eða hugmyndir þess eðlis að ekki hafi verið möguleiki á að ná þeim árangri sem að var stefnt. En jafnframt að mjór er mikils vísir og ég vænti þess að þrátt fyrir að ekki sé mikið fjármagn lagt í þetta, muni þetta verða skref fram á við.