Afb

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 17:47:58 (5884)

2001-03-19 17:47:58# 126. lþ. 94.94 fundur 398#B afb# (afbrigði við dagskrá), ÖS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[17:47]

Össur Skarphéðinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni viljum ekki koma í veg fyrir að þetta mál komi hér á dagskrá, það ber hins vegar ákaflega brátt að. Nú á eftir að kanna viðhorf deiluaðila og við óskum eftir því að fá ráðrúm til þess á milli umræðna. Það skiptir okkur t.d. miklu máli að vita hver afstaða sjómanna er til þessa máls.

Við munum þess vegna ekki greiða atkvæði gegn afbrigðum heldur sitja hjá. Við höfum hins vegar alla fyrirvara á því hvort og hvernig við tökum þátt í að flýta afgreiðslu málsins gegnum þingið eins og lagt er upp með.

Það er aftur á móti bitur staðreynd að eftir þriggja og hálfs sólarhrings verkfall skuli ríkisstjórnin í reynd leggja til að því verði slitið með lögum. Það sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur spilað þessu máli út í horn og ábyrgðin er því alfarið hennar.