Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 17:53:34 (5888)

2001-03-19 17:53:34# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[17:53]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Af þessari stuttu framsögu hæstv. sjútvrh. fékk ég ekki betur skilið en að hæstv. sjútvrh. segði að samkomulag væri um það milli þingflokkanna á hinu háa Alþingi að þetta mál yrði ekki sent til nefndar. Ég kannast ekki við það samkomulag, herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst, eins og kom fram í atkvæðaskýringu minni áðan, að okkur sem eigum að fjalla um þetta mál sem lagt er hérna fyrir með svona óvanalegum hætti, verður að gefast ráðrúm til að kanna til hlítar viðhorf deiluaðila.

Ég sagði t.d. áðan, herra forseti, að það væri ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur í Samfylkingunni að fá að heyra afstöðu sjómanna til þessa máls. Það skiptir einfaldlega miklu máli. Málið er það viðamikið að ég tel að við þurfum að fá frv. til viðkomandi nefndar og ræða það þar. Ég tel ekki nóg að taka þetta bara inn í þingflokka heldur þurfi að brjóta það til mergjar í nefndinni. Ég segi þess vegna, herra forseti, að það kemur á óvart sem hæstv. sjútvrh. segir hér.