Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:26:20 (5899)

2001-03-19 18:26:20# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er ömurleg staða að Alþingi skuli standa frammi fyrir því að þurfa að fjalla um frv. til laga um frestun á verkfalli sjómanna. Það er ömurleg staða í ljósi þess að þær fréttir sem við höfðum síðastar af viðræðum þessara aðila voru þær að nú væri loksins einhver gangur að koma í þær. Það er ömurlegt í ljósi þess að á undanförnum árum hefur Alþingi aftur og aftur gripið inn í kjaradeilu þannig að aðilum hefur ekki gefist kostur á að ljúka samningum sínum. Það er ömurlegt í ljósi þess að þessi stétt manna, sjómenn, hefur ekki einu sinni fengið frið til þess að semja um þau lágmarksréttindi sem aðrar stéttir hafa verið að semja um á undanförnum árum, hvað þá að menn hafi komist í að ræða hin stóru deilumál.

Herra forseti. Ég held að við hljótum að lýsa allri ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin á hendur ríkisstjórninni. Ekki bara liggur hér fyrir Alþingi frv. til laga sem á að fækka yfirmönnum á skipum og veldur úlfúð. Ekki bara hefur dregist úr hömlu að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða heldur er það þannig að þegar menn geta aldrei lokið samningum, þegar aldrei er friður til þess, herra forseti, þá batna ekki deilumálin, þau hverfa ekki. Nei, þau verða verri viðureignar. Þess vegna verður þessi langvarandi deila sjómanna og útvegsmanna verri og illviðráðanlegri með hverju árinu sem líður, með hverju verkfallinu sem kemur og er síðan tekið af með lögum, herra forseti. Með hverju því skipti sem menn eru í rauninni teknir frá þeirri ábyrgð sem þó hvílir á þeim, að ljúka samningum.

Herra forseti. Fram hefur komið að fiskimenn hafa verið samningslausir á annað ár. Jafnframt hefur komið fram að á undanförnum 14 árum hafa þeir verið samningslausir í sex og hálft ár. Þetta segir okkur auðvitað að hér er ekki allt með felldu.

Það er alveg ljóst að verkfall kostar. Öll verkföll kosta. Verkfall sjómanna kostar líka. Spurningin er hvenær við ætlum að taka þann kostnað sem því fylgir að leyfa aðilum að ljúka samningum sínum. En ég vil líka leggja áherslu á það, herra forseti, að það að fresta því að taka á sig þann kostnað sem fylgir verkfalli, með því að stöðva það, kostar líka. Því fylgir endalaus óánægja. Því fylgja illdeilur. Því fylgir ósætti. Því fylgir að menn horfast síður í augu við þau verkefni sem blasa við þeim. Það þýðir einfaldlega, herra forseti, að menn koma sér undan þeirri ábyrgð sem þeir verða þó að axla að endingu vegna þess að ekki stendur til að afnema samningsrétt sjómanna.

Það er furðulegt núna þegar menn héldu að eitthvað væri að byrja að ganga og fréttir gáfu slíkt til kynna þegar sú pressa var hugsanlega komin á að menn voru farnir að tala saman, það var farið að nefna erfið deilumál, það voru farnar að koma fram hugmyndir, að þá skuli vera gripið inn í. Tilfinning mín er sú að í þessum inngripum sé dálítill flumbrugangur. Ekki er óskaplega langt síðan hæstv. sjútvrh. sagði okkur í fréttatíma að ekki yrði gripið inn í deiluna. Síðan kemur hann með frv. þar sem hann ætlar að fresta verkfalli til 19. apríl. En um leið og hann mælir fyrir því segir hann okkur líka að þess þurfi líklega ekki. Ætli það nægi ekki að fresta því til 1. apríl. Hvílíkur stöðugleiki. Hvílík stefnufesta.

Þetta er ekki taustvekjandi, herra forseti, og gefur ekki til kynna að hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin hafi sett sig vel inn í gang mála né heldur að mönnum sé nokkur alvara með því að láta aðila ljúka deilunni með samningi.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að það sem veldur mestum erfiðleikum í samskiptum útvegsmanna og sjómanna eru skipulagsmál sjávarútvegsins. Það er sú staða að ekki hefur verið hægt að ná utan um viðskipti með kvóta þannig að sjómenn séu sáttir. Það er sú staða að ekki skuli heldur hafa verið hægt að ná utan um viðskipti með afla þannig að sjómenn séu sáttir. Meðan staðan verður slík er hætt við, herra forseti, að þeir kjarasamningar náist ekki sem menn eru að vonast til að náist, sem skapa vinnufrið, sem gera það að verkum að flotinn geti verið að, menn geti skipulagt vinnu sína og menn geti horft til þess að framtíðin verði í sæmilegu jafnvægi á milli þessara aðila. Nei, ekki hefur gengið að takast á við þessi skipulagsmál. Það er líka á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar.

Sannarlega hefði ríkisvaldið getað farið inn í þessi mál við endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða. Sannarlega er það á valdi Alþingis og þess meiri hluta sem þar situr að móta starfsumhverfi sjávarútvegsins. En menn hafa ekki á undanförnum árum tekið þar til hendinni eins og hefur þó verið ærin ástæða til, heldur hafa menn hrakist undan í lagasetningu, hrakist undan á hverjum tíma, tekið deilur af með löggjöf, reynt að búa til gervilausnir sem hafa síðan ekki dugað. Niðurstaðan er ein og söm: Sjómenn eru samningslausir. Deilan endar í verkfalli. Alþingi setur lög.

Herra forseti. Þetta er að verða eins og sagan endalausa. Við gerum kröfu til þess að sjómenn og útvegsmenn fái eins og aðrar stéttir að ljúka deilu sinni með samningi. Það mun alltaf kosta peninga að fara í verkfall. Það kostar nú. Það mun kosta hvenær sem menn leyfa þessum aðilum að hafa frið til samningsgerðar.

Ef það er rétt --- og það munum við fá að vita í hléinu sem gert verður eftir þessa umræðu --- að alvöruhreyfing hafi verið komin á viðræður núna þegar gripið er inn í af hálfu ríkisstjórnar er það mikill ábyrgðarhluti. Þá er það mikil ábyrgðarhluti, herra forseti, vegna þess að þá kann svo að vera að hér sé verið að slökkva þann vonarneista sem hefði þó verið hægt að hlúa að og hefði getað endað með samningi þessara aðila eins og kjaradeilur eiga að enda.