Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:49:45 (5908)

2001-03-19 18:49:45# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, GHall
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:49]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Enn ein umræðan fer nú fram í Alþingi vegna stöðu sjómanna og þeirrar kjaradeilu sem þeir hafa átt í um langan tíma. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að það eru mér mikil vonbrigði hvernig stöðu mála er komið nú. Einnig það að þótt þessi frestur sé nú viðhafður með öðrum hætti en venja hefur verið til, eins og fram kom hjá hæstv. sjútvrh., þ.e. venjulega er lagasetning á einhvern ákveðinn hluta þess máls sem þá var kannski í lausn, þ.e. einhver hluti af kjarasamningi er gerður með lagasetningu til langs tíma, var ekki gott, ekki frekar en þessi frestur nú.

Ég hefði talið eðlilegt, herra forseti, að á þessu beini væri t.d. það sem gerst hefur í öðrum kjarasamningum. Í samningum farmanna þar sem samið hefur verið um að þeir greiði sérstaka greiðslu í lífeyrissjóð, þar sem samið hefur verið um sérstaka tryggingu, sérstakar tryggingabætur sem sjómenn hafa búið við einir launþega í landinu um áratuga skeið. Um langan tíma, því miður, hafa þeir sem lent hafa í slysum, og allt of mörg slys verða á sjó, verið þeir einu í þeirri sérstöku stöðu að þurfa að sanna sök, þurfa að sanna að þeir séu slasaðir. Þurfa að sanna að eðlilegt og rétt sé að þeir fái bætur. Hér hefði verið auðvelt að bæta á þetta bein á meðan útgerðarmenn væru að sleikja sár sín þess vegna og búa sig undir að takast aftur á við þessi mál eftir 11 daga.

Þetta er með ólíkindum, hafandi sjálfur staðið í deilu margoft hjá sáttasemjara. Þessi vinnubrögð útgerðarmanna eru ekki eðlileg. Það er ekki eðlilegt að menn séu varla byrjaðir að ræða saman þegar farið er í startstellingar með steytta hnefa. Það leysist aldrei nein deila með þeim hætti. Ég hélt, herra forseti, að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið núna á forustu LÍÚ væru komnir menn með nýja hugsun, ný vinnubrögð og nýja ásýnd. En því miður, ef eitthvað er, þá sýnist mér hjólið hafi snúist heldur aftur á bak en áfram.

Það er einnig mjög alvarlegt mál þegar verkfall hefur aðeins staðið yfir í þrjá og hálfan dag. Við sögðum ekkert við löngu verkfalli kennara. Það var mjög skaðleg deila. Hún hafði skaðleg áhrif á allt þjóðlífið, en þessi þriggja og hálfs dags deila sjómanna hefur ekki tekið svo á, ekki enn. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að mikið er í húfi. En vissu útgerðarmenn það ekki fyrir 13 mánuðum? Ætli sjómenn hafi ekki vitað það? Ég er alveg sannfærður um að þeir gerðu sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir voru að taka á sig með því að boða til þessa verkfalls.

En getur verið, herra forseti, að deiluaðilar, a.m.k. annar hluti þeirra, sé farinn að byggja á því og treysta á að svona verði með málin farið eins og við erum hér að ræða um? Það er vont ef svo er, en einhvern veginn býður mér í grun að svo muni vera. Það er vont fyrir þessa ríkisstjórn sem hefur frelsi og lýðræði að leiðarljósi að grípa inn í kjarasamninga með þessum hætti, jafnvel þótt það sé öðruvísi en gert hefur verið áður, með einhverri frestun þegar við vorum vör við og heyrðum ekki annað en hjólin væru farin að snúast.

Ég verð að segja og endurtaka það sem ég sagði áðan: Jú, vissulega kemur þetta mál til sjútvn. þar sem ég á sæti og mun auðvitað taka þátt í þeim umræðum sem þar munu fara fram, en eins og málin blasa við núna, herra forseti, er alveg ljóst og þingheimi ljóst að ég mun ekki greiða atkvæði með þessum lögum. [Lófatak á þingpöllum.]

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja áheyrendur að halda friðinn.)