Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 21:19:19 (5914)

2001-03-19 21:19:19# 126. lþ. 95.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, LB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 126. lþ.

[21:19]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld eðli verkfalla að hafa áhrif. Vitaskuld hafa verkföll í för með sér tjón. Verkfallsaðgerðum er ætlað að knýja á um betra kaup manna og bætt kjör. Menn beita ekki slíkum tækjum nema í neyð. Það eru því heldur sérstæð rök, borin fram ein og sér, að verkfallið valdi tjóni. Við upplifðum það í löngu verkfalli kennara sem hafði veruleg áhrif, þó að kannski hafi verið erfitt að mæla þau fjárhagslega, á það fólk sem varð fyrir barðinu á því. Ekki þótti ástæða til að grípa til aðgerða vegna þess.

Við höfum setið á fundi í hv. sjútvn. í tæpan klukkutíma. Þar komu fyrir nefndina allir fulltrúar deiluaðila. Enginn þeirra talaði um að þeir hefðu óskað eftir því að frv. sem við ræðum nú yrði borið fram. Enginn þeirra kvaðst hafa vitað um þetta fyrr en seinni partinn í dag, m.a. lýsti fulltrúi LÍÚ því yfir að hann hefði fyrst heyrt þetta í útvarpinu klukkan fimm. Manni virðist út frá því sem það sé alfarið ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja þetta frv. fram á hinu háa Alþingi. Það kemur hins vegar verulega á óvart í ljósi þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru fyrir helgina, að ekki yrði gripið til neinna aðgerða nema samkvæmt beiðni deiluaðila. Ekkert virðist hafa verið að marka þær yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að ekki skyldi gripið til aðgerða nema eftir þeim yrði óskað. Staðreyndin er að það hafði ekki slitnað upp úr viðræðunum. Menn sátu við og þeir hafa lýst því yfir að verulega hafi þokast í átt að samningum. Það er mjög alvarlegt að grípa inn í vinnudeilur, sérstaklega þegar deiluaðilar hafa verið samningslausir í rúmlega ár.

Á fundi í sjútvn. kom fram að þetta inngrip gæti allt eins leitt til þess að deilan mundi dragast verulega á langinn og mundi hleypa illu blóði í samningsaðila. Um það get ég vitaskuld ekki fullyrt eða aðrir hv. þm. Hins vegar kom þetta viðhorf mjög sterkt fram á fundi sjútvn. Það er því algerlega á ábyrgð hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar ef þetta inngrip mun hafa slík áhrif.

Maður veltir því fyrir sér, eins og fleiri hv. þm. hafa gert við þessa umræðu, að sumar veiðiaðferðir eru árstíðabundnar. Við siglum fljótlega inn í það tímabil þar sem menn geta stundað veiðar á úthafskarfa. Það veiðitímabil hefst núna í byrjun apríl og stendur fram undir sjómannadag, ef læra má af reynslunni. Á því tímabili munu hefjast veiðar á norsk-íslensku síldinni.

Við getum stjórnað því nokkuð hvenær ársins við veiðum stóran hluta aflans. Loðnuna getum við hins vegar ekki veitt nema á ákveðnum árstíma. Eigi samningsaðilar að búa við það að þegar kemur að því að stunda árstíðabundinn veiðiskap meðan á vinnudeilum stendur þá grípi ríkisstjórnin jafnan inn í með lagasetningu, þá er það fremur alvarlegt. Þá er verulega ástæða til að velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að leyfa þessum aðilum að hafa verkfallsrétt? Sá réttur þjónar engum tilgangi ef Alþingi grípur ætíð inn í. Ég held það hljóti af vera eitt af því sem við þurfum að velta mjög vandlega fyrir okkur. A.m.k. var ekki annað að heyra á yfirlýsingum hæstv. ráðherra fyrir helgina en að ekki kæmi til greina að grípa inn í þessa deilu.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur þrátt fyrir allt ákveðið að grípa inn í eins og raun ber vitni. Sú ákvörðun virðist ekki hafa verið þaulhugsuð. Þetta efnislitla frv. kvað á um frestun verkfalls til 19. apríl en eftir nokkur samtöl eða hugleiðingar einhverra var ákveðið að fresta því til 1. apríl. Fyrir því eru heldur engin sérstök rök. Það virðist sem menn hafi verið í tómarúmi og lítt leitt hugann að því hvernig bregðast skyldi við.

Það vekur athygli að ákvörðun um að leggja fram þetta frv. kemur í beinu framhaldi af landsfundi Framsfl. þar sem sjávarútvegsmálin voru sett í nefnd fram á haustið. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort þar eru einhver tengsl á milli en málið er dálítið sérstakt með tilliti til yfirlýsinga hæstv. ráðherranna fyrir helgina.

Það breytir ekki hinu, virðulegi forseti, að við í minni hlutanum lýsum allri ábyrgð á þessu máli á hendur ríkisstjórninni og munum greiða atkvæði gegn frv.