Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 21:35:46 (5917)

2001-03-19 21:35:46# 126. lþ. 95.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, GHall
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 126. lþ.

[21:35]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það hefur verið farið nokkuð ítarlega yfir þetta mál og ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði að ekki væri til mikils að eyða miklum orðaforða í málið í sjálfu sér. Staða málsins er sú að það þarf að vinda sér í að semja vegna þess sem hér liggur fyrir hinu háa Alþingi.

Hitt vildi ég líka segja að hér hefur sagan verið rakin, verkfallsferillinn og sá tími sem hefur farið í samningaviðræður milli sjómanna og útvegsmanna á umliðnum árum og það samningsleysi sem sjómannastéttin hefur búið við um langan tíma. Það segir okkur enn um það og er kannski áminning til þjóðarinnar, sá atburður sem hér er að gerast, um mikilvægi sjómannastéttarinnar. En að sama skapi þarf auðvitað að halda öðruvísi á málum en hér er gert.

Ég hitti mann hérna úti áðan sem spurði mig um hvað þessi deila snerist. Hann spurði: Hvað er verðmyndun í sjávarútvegi sem mest er deilt um? Hvað er það? Og það er kannski ekki nema von að spurt sé. Það eru ekki margir sem gera sér fulla grein fyrir því, þeir sem eru komnir langt frá sjávarútveginum og eru jafnvel farnir að búa sér til þá mynd að við lifum á einhverju öðru en sjávarfangi. Ég lýsti þessu á einfaldan hátt. Ég sagði: Sú deila er svona. Það eru tvö skip gerð út frá verstöð, annað landar í fiskverkun þar sem útgerðarmaðurinn er jafnframt eigandi, en hitt landar á markað. Þar sem landað er á markað, þar fær áhöfnin 100 kr. fyrir kíló af þorskinum, en þar sem landað er í fiskverkun, þar fær áhöfnin 50 kr. fyrir kílóið. Þetta er deilan í hnotskurn.

Þegar menn segja síðan að allt of stuttur tími sé til að semja nú, þá vita deiluaðilar og útgerðin fyrst og fremst allan aðdragandann. Úgerðin veit að það kemur að því að leysa þurfi málin.

Ég sagði hér fyrr í kvöld að þetta væri með ólíkindum, ég hefði á tilfinningunni að hjólin væru farin að snúast aftur á bak hjá þeim sem mestu ráða um hvernig á verður haldið í samningaumleitunum. Ég er þess enn fullviss að eitthvað vantar í það sem aðrir hafa tekið upp í samningaumleitunum. Í kjaradeilu við kaupskipaútgerðir hefur stundum verið settur á dómur. En hann hefur þá oftar en ekki farið þannig að sá dómur hefur verið á útgerðarmenn um að gera betur en þeir hafi gert. Það er líklega teljandi á fingrum annarrar handar sem það hefur gerst varðandi fiskiskipin á líklega síðustu fjórum áratugum. Ég vona að það sé ekki það sem þurfi til að koma til að útgerðarmenn komi að samningaborðinu og átti sig á því að ekki er hægt að hleypa öllu í uppnám þegar verkfall er brostið á. Auðvitað er þetta heimaverkefni og vinna sem þarf að takast á við, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Það er ekkert öðruvísi með kjarasamninga milli fiskimanna og útgerðarmanna en annarra aðila í landinu, þar sem menn verða að setjast niður og finna flöt á málinu. Það er of oft búið að velta þessu máli hingað inn í hið háa Alþingi. Og jafnvel sagt sem svo að öðrum aðilanum liggi ekkert á því hann viti hvar málið muni enda.

Ég trúi því ekki og það kom fram hjá öllum aðilum sem komu á fund sjútvn. að þeir vissu ekkert um stöðu málsins sem nú er komin upp.

Herra forseti. Talað hefur verið um að ekki hafi slitnað upp úr viðræðum, en hins vegar kom fram hjá fulltrúa sjómanna að engar viðræður voru komnar í gang fyrr en verkfallið var að bresta á. Það gefur allri þessari mynd vonda ímynd sem blasir við. Ég er ekki þar með að segja að ábyrgðin sé öll á annan veginn. En auðvitað eru það þó útgerðarmennirnir sem ráða mestu um.

Ég lýsti afstöðu minni áðan, herra forseti, að ég mundi greiða atkvæði gegn þessari lagasetningu og þess vegna ritaði ég ekki undir nál. sem hér liggur fyrir. Ég vildi fyrst og fremst gera grein fyrir því, herra forseti.