Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:05:02 (5922)

2001-03-26 15:05:02# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í öryrkjamálinu sem svo hefur verið nefnt fól ríkisstjórnin sérstökum starfshópi að greina hvaða leiðir væru færar til að bregðast við dómnum, undirbúa frv. og meta hversu víðtækar afleiðingar dómurinn kynni að hafa. Verkefni starfshópsins voru reifuð í erindisbréfi sem hann fékk í hendur ásamt minnisblaði ríkisstjórnarinnar sem starfshópurinn síðan vísar í í skýrslu sinni. Lögmaður Öryrkjabandalagsins óskaði eftir þessu minnisblaði, var meinað um það og hyggst sækja mál sitt fyrir dómstólum.

Stjórnarandstaðan á Alþingi taldi einnig mikilvægt að fá þessi gögn fram í dagsljósið og með hliðsjón af skyldu til að rækja eftirlitshlutverk sitt óskuðu formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar eftir því að minnisblaðið yrði birt. Þetta byggir á stjórnarskrárvörðum rétti alþingismanna en samkvæmt honum er ráðherra skylt að svara fyrirspurn sem leyfð hefur verið á grundvelli 54. gr. stjórnarskrárinnar.

Í riti sem forsrn. gaf út á árinu 1999, um starfsskilyrði stjórnvalda, er tekið undir að þetta er ótvíræður réttur en jafnframt er því haldið fram að ráðherra hafi ákveðið mat um það hvernig hann setji fram svör sín svo lengi sem þau séu rétt og nægilega ítarleg til að upplýst umræða geti farið fram. Ef það er rétt sem staðhæft er í bæklingi forsrn. að það sé komið undir mati ráðherra hvort fyrirspurnum þingmanna er svarað, þá er í fyrsta lagi eðlilegt að Alþingi setji um það reglur hvernig stjórnarskrárvarinn réttur alþingismanna til eftirlits sé varinn og í öðru lagi í sambandi við þetta mál sérstaklega er eðlilegt að hæstv. forsrh. sé spurður á hverju hann byggi það mat sitt að neita Alþingi um aðgang að minnisblaði sem haft skyldi til grundvallar við samningu á lagafrv. og túlkun á dómi sem vakið hefur meiri deilur en dæmi eru um í seinni tíð.