Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:09:19 (5924)

2001-03-26 15:09:19# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og menn vita var Alþingi gerð grein fyrir öllum meginatriðum þess títtnefnda minnisblaðs sem menn hafa verið að fjalla um hér og nú, allt sem nauðsynlegt var til að menn gætu rætt um þau lagafrv. sem nauðsynlegt var að afgreiða vegna dóms Hæstaréttar eins og mönnum er kunnugt.

Að því er varðar efni minnisblaðsins að öðru leyti, þá er auðvitað fullkomin ástæða til að árétta að það var undirbúið fyrir ríkisstjórnina og sérstaklega tekið saman fyrir fund hennar um málið.

Alþingi sjálft hefur, bæði í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og upplýsingalögum, nr. 50/1996, talið ástæðu til að verja gögn af þessu tagi alveg sérstaklega og við það verðum við að halda okkur. Enda þótt þessum lögum verði vitaskuld ekki beitt sem slíkum við úrlausn deilna um aðgang að upplýsingum frá þinginu er þó til þess að líta að fundir þingsins eru háðir í heyranda hljóði og gögn sem þar eru lögð fram eru almenningi aðgengileg. Í raun er því enginn eðlismunur á þeim aðgangi sem almenningi er veittur á grundvelli upplýsingalaga og þeim aðgangi sem þingmönnum er veittur á grundvelli stjórnarskrárvarins fyrirspurnaréttar þeirra um opinber málefni. Í ljósi þessa hlýtur því mat á inntaki upplýsingaréttar þingsins og takmarkanir sem hann sætir að mörgu leyti að byggjast á sams konar sjónarmiðum og þær takmarkanir sem lögfestar hafa verið gagnvart upplýsingarétti almennings. Er sú nálgun málsins í samræmi við þær ábendingar sem fram komu í skýrslum um starfsskilyrði stjórnvalda sem lögð var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi, samanber þskj. 376. Þar var jafnframt á það bent að æskilegt væri að inntak þess réttar yrði nánar afmarkað í þingskapalögum, þar á meðal hvaða upplýsingar ráðherra væri heimilt að undanþiggja svörum við fyrirspurnum Alþingis. Alþingi hefur hins vegar engan reka gert að því að breyta þeim lögum.

Ég spyr hv. þingmenn hvort þeir telji að einstaklingar sem fara fram á upplýsingar og er synjað, það fer fyrir sérstaka stjórnskipaða nefnd um þetta efni samkvæmt sérstökum lögum og ef því er synjað þar, að þá geti viðkomandi einstaklingar bara beðið þingmenn um að hlaupa með spurningu sína inn á Alþingi og þá verði menn að svara því. Að sjálfsögðu er það ekki svo.