Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:21:54 (5930)

2001-03-26 15:21:54# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í grannríkjum okkar eru upplýsingaskyldur stjórnvalda miklar. Þó eru einhverjar skorður reistar og þá vísað til þjóðaröryggis eða þagnarskyldu í tilteknum málum.

Í fyrrnefndum bæklingi forsrn. um starfsskilyrði stjórnvalda segir, með leyfi forseta:

,,... réttur alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni ráðist ekki af upplýsingalögum heldur byggist hann á sjálfstæðri heimild sem er að finna í 54. gr. stjórnarskrárinnar.``

Í svari til okkar þingflokksformanna, þar sem hafnað er erindi okkar að birta minnisblaðið, segir hins vegar að enginn eðlismunur sé á aðgengi að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum og aðgangi þingmanna á grundvelli stjórnarskrárvarins fyrirspurnaréttar þeirra.

Nú skulum við láta þær mótsagnir sem koma fram í greinargerðum og svörum forsrn. og hæstv. forsrh. liggja á milli hluta. En það er með öllu ófært að Alþingi sé meinað um upplýsingar sem alþingismenn telja nauðsynlegar fyrir upplýsta, lýðræðislega umræðu á þinginu. Það er líka ófært að það sé háð duttlungum ráðherra hvernig stjórnarskrárvarinn réttur alþingismanna til eftirlitsskyldu gagnvart framkvæmdarvaldinu er túlkaður.

Við getum ekki skilið við þetta mál með þessum hætti. Stjórnarandstaðan mun að sjálfsögðu setjast yfir þessi mál og íhuga hvernig við fáum upplýsingar, sem okkur er meinað um, færðar fram í dagsljósið. Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. hefur ekki svarað einu orði um innihald þess máls sem hann er spurður um. Hann er spurður á hverju hann byggi það mat sitt að meina ekki aðeins Öryrkjabandalaginu heldur alþingismönnum, stjórnarandstöðunni á Alþingi, um upplýsingar sem okkur ber samkvæmt stjórnarskrá Íslands að fá í hendur.