Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:24:20 (5931)

2001-03-26 15:24:20# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Röksemdafærsla hæstv. forsrh. stenst ekki og reyndar liggja fyrir skjöl frá honum sjálfum, hæstv. ráðherra, sem hrekja þær röksemdir sem færðar eru fyrir því að afhenda ekki þetta minnisblað eða svara ekki fyrirspurn á Alþingi. Einnig er nauðsynlegt að gera greinarmun á skyldu manna til að leggja fram upplýsingar og hinu að þeir ákveði að gera svo af fúsum og frjálsum vilja. Það er munur á því að ekki sé skylt að afhenda upplýsingar og hinu að ákveða að gera það. Það er ekki þar með sagt að það sé bannað. Það er ekki þar með sagt að neitt hindri hæstv. forsrh. í að afhenda þessar upplýsingar, svara þessum fyrirspurnum þó að menn kynnu að telja svo að hann væri ekki skyldur til þess að lögum. Þessu þyrfti hæstv. forsrh. líka að átta sig á og svo hinu að hér er um stjórnarskrárvarinn og mjög sterkan rétt alþingismanna að ræða. Fyrir nú utan að velja sér þann málstað sem gengur auðvitað gegn opnari stjórnunarháttum og gengur gegn eðlilegu þingræði að afhenda ekki þessar upplýsingar þegar um þær er beðið í fyrirspurn. Þvílíkur málstaður að verja í nútímalýðræðisþjóðfélagi.