Innflutningur tækja frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:27:11 (5933)

2001-03-26 15:27:11# 126. lþ. 97.1 fundur 408#B innflutningur tækja frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og þá hugsun sem kemur fram í máli hans því að þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Þetta er spurningin um hvort okkur tekst að verjast og losna við þá plágu sem herjar nú í Evrópu.

Hvað varðar notuð tæki sem hér eru flutt inn get ég lýst því yfir að strax og ég varð landbrh. fór ég að glíma við það vandamál að menn fluttu inn skítug tæki, hestakerrur, því miður oft óhreinar. Það var líklega frekar í október 2000 en nóvember sem ég setti samkvæmt lögum reglugerð þar sem bannað var að flytja inn notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur. Þetta var tilkynnt yfirdýralækni en hins vegar getur landbrh. veitt undanþágu. Þetta hefur verið í þessum farvegi síðan.

Síðan hefur það náttúrlega verið núna í kringum þessar miklu plágur sem hafa geisað, ekki síst gin- og klaufaveikina, að yfirdýralæknir hefur haldið fundi með tollstjóranum í Reykjavík og farið yfir þessi mikilvægu mál og að rétt verði að þeim staðið. Auðvitað ber að fylgjast með þessu og gera þetta samkvæmt þessari reglugerð. Mér finnst þarna vera strangar reglur sem ég trúi ekki öðru en að sé farið eftir því að það er mjög mikilvægt.

Hvað varðar Norrænu þá hefur maður enn þá verið með hugann bundinn við Keflavík og þær varnir sem hefur verið gripið til þar en ég tek undir þá hugsun sem kom fram í máli hv. þm. að auðvitað þarf að fara að huga að því, það er stórmál. Þar verður áreiðanlega gripið til öruggra aðgerða áður en ferðalög hefjast í vor. En ég kann ekki að segja alveg frá því hvort sú vinna sé hafin en hún verður sett í gang.