Innflutningur tækja frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:30:24 (5935)

2001-03-26 15:30:24# 126. lþ. 97.1 fundur 408#B innflutningur tækja frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það var sett skýrt inn í reglugerðina eitthvað á þá leið að leiki rökstuddur grunur á að vélar sem komnar eru til landsins hafi verið notaðar í landbúnaði áður þá beri að tilkynna yfirdýralækni um það og þeim verði ekki hleypt inn í landið fyrr en hann gefur samþykki sitt fyrir því og menn hans hafa yfirfarið tækin. Þetta snýr að fleiru en hestakerrum því að þetta geta verið plógar, traktorar, vörubílar og gröfur. Þannig á þetta að ganga fyrir sig og mér finnst mjög mikilvægt að því sé fylgt eftir.

Ég vil ekki trúa öðru en að tollstjóraembættið, sem hefur eins og ég sagði áðan átt fundi með yfirdýralækni, fari yfir málið. Þetta er mjög mikilvægt því að sú mikla plága sem nú herjar á Evrópu er að segja má á næsta bæ við okkur. Þess vegna ber, í þessu efni sem öðru og ekki síst hvað Íslendinga og ferðamenn sem koma til landsins varðar, að gæta fyllstu varúðar á öllum sviðum.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn.