Laxeldi í Klettsvík

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:31:51 (5936)

2001-03-26 15:31:51# 126. lþ. 97.1 fundur 409#B laxeldi í Klettsvík# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er til umfjöllunar í hv. landbn. frv. ríkisstjórnarinnar um lax- og silungsveiði þar sem kveðið er á um hvernig skuli standa að leyfisveitingum til laxeldis í sjókvíum hér á landi. Sá lagalegi umbúnaður sem greinin býr við að þessu leyti hefur að flestra dómi verið mjög ófullnægjandi og brýn nauðsyn er á að búa greininni tryggara umhverfi nú þegar mikill áhugi er á að reyna eldi á norskum laxi í sjókvíum.

Við 1. umr. málsins lýstu allir þeir sem til máls tóku vilja sínum til að hraða afgreiðslu málsins vegna þess að nokkrar umsóknir biðu afgreiðslu og nauðsynlegt væri að afgreiða þær í samræmi við nýju lögin. Nú bregður svo við að á þeim tíma sem hv. landbn. hefur setið önnum kafin við yfirferð málsins hefur hæstv. landbrh. brugðið undir sig betri fætinum og staðfest tvö rekstrarleyfi austur á landi og nú í lok síðustu viku brá honum fyrir í dagblöðum landsins þar sem hann stóð á kassa með virðulega hirð valinkunnra þingmanna sér við hlið og gaf Íslandslaxi tilraunaleyfi til að rækta lax í kví í Klettsvík í Vestmannaeyjum.

Þetta kom þeim mun furðulegar fyrir sjónir þar sem alþekkt er að í þessari vík er í fleti fyrir hvalur einn sem ættleiddur var hingað með dýrlegum fögnuði fyrir fáeinum árum og hefur hingað til ekki viljað fara frá okkur þó að honum hafi verið boðið upp á það. Um örlög hans er því allt óráðið. Er það svo að þessi hugmynd ráðherrans um að koma á eins konar tilraun um sjálfbært samlífi hvals og laxa í Klettsvík hafi verið svo áríðandi að ekki hafi verið hægt að bíða eftir fyrrnefndu frv. sem er rétt ókomið úr afgreiðslu í hv. landbn.?